Innan við helmingur bílstjóra virti stöðvunarskyldu á gatnamótum Hagamels og Furumels við Melaskóla í Reykjavík þegar starfsmenn VÍS fylgdust með umferðinni þar í vikunni.
Flestir þeirra sem þó námu alveg staðar gerðu það þegar börn voru á leið yfir götuna. Ef þeim sem stöðvuðu nær alveg er bætt við þennan tæpa helming fer hlutfallið í 59%. Það þýðir að fjórir af hverjum tíu ökumönnum fóru mjög óvarlega og þverbrutu umferðarlögin að því er fram kemur í tilkynningu VÍS.
Þá kemur fram að fleira hefði mátt fara betur þar sem foreldrar voru taldir hleypa börnum allt of oft út úr bíl umferðarmegin eða á gangbraut en hvorugt þykir æskilegt. Bent er á að heldur skuli stoppa á öruggum stað og hleypa farþegum út hægra megin í vari fyrir aðvífandi umferð.