Ráðamenn í Japan horfa nú til þess að hækka skatta á litla sparneytna bíla og ýta þannig bílaframleiðendum út í að framleiða meira af stærri bílum sem eru seljanlegri á erlendum markaði. Hugmyndirnar hafa vakið hörð viðbrögð í Japan, en þessir litlu bílar, sem í daglegu tali kallast „kei“, voru 40% af heildarbílasölu í landinu á síðasta ári.
Allar götur frá stríðslokum hafa ráðamenn talað fyrir notkun á kei-bílum. Þá vildu stjórnmálamenn að Japanir skipti út vespum og vögnum sem fólk dró sjálft yfir í bíla. Í umfjöllun New York Times um málið kemur fram að til þess að sem flestir gætu eignast bíla hafi skattar verið lækkaðir á smábíla með litla bensíneyðslu. Kei-bílarnir mega t.d. aðeins vera með 0,66 lítra vél, sem er svipað og millistærð af mótorhjóli. Minnstu bílar hjá framleiðendum utan Japans hafa flestir töluvert stærri vélar.
Þessi stefna stjórnvalda hefur þróast út í mikla ástríðu fyrir Japani og eins og fyrr segir var sala á kei um 40% af heildarsölu bíla í Japan á síðasta ári. Bílarnir eru sérstaklega vinsælir í sveitahéruðum, þar sem almenningssamgöngur eru ekki jafn góðar og efnahagur fólks slakari. Lítill rekstrarkostnaður og lágt kaupverð hafa meðal annars ýtt undir að konur færu í auknum mæli að keyra bíla sjálfar og í framhaldinu vinna utan heimilisins.
Þrátt fyrir að margir af stærri bílaframleiðendum landsins, þar á meðal Nissan, Honda, Suzuki og Toyota, framleiði allir svona bíla virðast stjórnvöld ætla að taka slaginn og hækka skatta á þessa smábíla á ný. Helsta ástæðan er sú að stjórnvöld telja að bílaframleiðendur séu að setja of mikinn kraft í þróun á bílum sem eru aðeins seldir í Japan, en kei-bílarnir standast ekki öryggiskröfur í mörgum löndum.
Osamu Suzuki, stjórnarformaður Suzuki, lét hafa eftir sér að með því að hækka skatta á kei-bíla væri verið að leggja þá sem hefðu minna milli handanna í einelti, en í nokkrum af fátækari héruðum Japans er kei-bílaeign í miklum meirihluta og í sumum héruðum eru næstum 100% af bílaflotanum slíkir smábílar.
Áform ríkisstjórnarinnar í tengslum við kei-bílana hafa komið af stað miklum umræðum um hverju aðgerðir forsætisráðherrans Shinzo Abe skili, en hann hefur staðið í skattahækkunum og hækkunum á olíuverði og ýtt undir verðbólgu til að koma efnahag landsins á ról aftur. Gagnrýnendur segja að þetta sé nýjasta útspilið í þeim aðgerðum, sem komi efnaminni fjölskyldum illa og þyngi byrðar þess hóps enn frekar. Þá komi þetta sérstaklega illa niður á efnalitlum barnafjölskyldum.