Heildarakstur lögreglunnar á Íslandi í fyrra var 3.423.578 kílómetrar og hefur dregist saman um 38% frá árinu 2007 en þá var aksturinn 5.521.861 kílómetrar. Þá hefur meðalaldur ökutækja lögreglunnar á sama tíma hækkað úr rétt rúmlega þremur árum í fjögur ár.
Þetta kemur fram í ársskýrslu ríkislögreglustjóra. Í henni segir að markmið embættisins sé að ökutæki lögreglu verði ekki eldri en þriggja ára.
Lögreglan hefur 143 ökutæki til ráðstöfunar og hefur fækkað um tvö frá árinu 2012. Í fyrra voru pantaðar tólf nýjar lögreglubifreiðar og fjögur lögregluhjól og fóru ökutækin í notkun hjá átta lögregluliðum.