Auðvitað er það vandræðalegt að vera stöðvaður fyrir hraðakstur og gefa viðkomandi þá oftast skýringar sem ekki duga til að sefa laganna verði. Norskur maður gaf upp all nýstárlega ástæðu fyrir hraðakstrinum.
Við eftirlitsstörf í Undrumsdal á nyrðri Vestfold í fyrradag kom bíll inn í hraðasjá lögreglubíls og mældist á 150 km/klst hraða. Óhjákvæmilegt var að stöðva ferð mannsins því hámarkshraði á veginum var 100 km.
Spurður um ástæður flýtisins svaraði hinn 45 ára ökumaður að hann hefði verið svo þreyttur og illa fyrir kallaður, að nauðsynlegt hefði verið að aka hratt til að halda sér vakandi. Með hægari akstri hefði einbeitingin dvínað og þar með líkur aukist á að hann félli í svefn undir stýri.
Lögreglustjórinn í Vestfold staðfestir þetta í blaðinu Sandefjord Blad og staðfestir að ökumaðurinn hafi haldið því fram að hraðakstur héldi sér vakandi.
Nú verður þessi þreytti ferðalangur að finna nýjar aðferðir til að halda sér vakandi því lögreglan tók skýringu hans ekki góða og gilda og svipti hann ökuskírteininu á staðnum.