Wankelvélin snýr aftur í Mazda 2

Mazda sendi frá sér fyrstu myndirnar af Mazda-2 í vikunni.
Mazda sendi frá sér fyrstu myndirnar af Mazda-2 í vikunni. mbl.is/Mazda

Mazda tekur í notkun nýjung með tilkomu nýrrar kynslóðar af Mazda-2 bílnum, eða Wankelvélina svonefndu. Hún er álíka nátengd Mazda og Eric Clapton gítarnum, ef svo mætti segja.

Það var sorg í mörgu hjarta er RX8-bíllinn frá Mazda rann sitt skeið fyrir nokkrum árum. Þar með var settur endapunktur í sögu Wankelvélarinnar, að því er sagt var þá.

Til að gæta sannmælis skal þess getið, að Wankelvélin átti sína veikleika. Ekki síst þann að hún var frekar bensínfrek. Hún hafði það helst með sér að vera létt og lítil umleikis, hvort tveggja eiginleikar sem ætla má að ættu upp á pallborðið hjá bílsmiðum nú til dags. Þá þykir skilvirkni hins litla slagrýmis með miklum ágætum.

Og nú virðist Mazda hafa að nýju öðlast trúna á vélina sem á rætur að rekja aftur til sjöunda áratugarins. Japanski bílsmiðurinn ætlar sumsé að taka hana aftur í notkun og er útlit fyrir að Mazda-2 hin nýja muni skarta honum, í tvinnútgáfu bílsins alla vega.

Sú útgáfa verður með minna móti, slagrýmið einungis 0,33 lítra og mun bensíntankurinn duga til 400 kílómetra aksturs þótt á honum fullum séu einungis níu lítrar bensíns.

Mazda mun ekki lengur nota skammstöfunina RX fyrir vél þessa, heldur að öllum líkindum RE. Það er skammstöfun fyrir ensku orðin Range Extender sem útleggst „drægisauki“.

Nýja Mazda-2 kynslóðin kemur á götuna á næsta ári.



mbl.is

Bloggað um fréttina