Bílastæðin fyrir utan verslunarmiðstöð í Kína eru nokkuð sérstök. Merkt „Virðingarfyllst frátekið fyrir konur“ með bleikri málningu og þrjátíu sentímetrum breiðari en hefðbundin stæði.
Stæðin við Dashijiedaduhui- eða „World Metropolis“-verslunarmiðstöðina hafa vakið athygli margra og þykir sumum sem þau geri beinlínis lítið úr konum.
Stæðin tíu, sem eru á besta stað við innganginn, voru gerð eftir að konur höfðu lent í vandræðum með að leggja í bílakjallaranum að sögn stjórnenda. „Mér finnst þetta mjög hentugt,“ sagði Yong Mei, kona sem virtist hæstánægð með fyrirkomulagið. „Önnur bílastæði eru alltof þröng.“
„Þetta er ekki kynjamisrétti,“ sagði hún. „Konur geta bara átt erfitt með að sjá til hliðar þegar þær eru að leggja.“
Aðrir hafa ekki tekið jafn vel í bílastæðin og hafa þau vakið heitar umræður á netmiðlum um jafnrétti kynjanna þar sem sérmerktu stæðin eru sögð móðgun. Stjórnendur í verslunarmiðstöðinni taka hins vegar fyrir það og segja stæðin eiga að gera konum lífið auðveldara, þar sem þær mynda meirihluta viðskiptavinanna.