Sala á Range Rover-jeppum hér á landi hefur aukist um 75% á milli ára. Allt síðasta ár seldust tuttugu slíkar jeppar en á fyrstu sex mánuðum ársins hafa 35 jeppar verið seldir. Slíkar tölur hafa ekki sést síðan fyrir hrun bankanna, að því er segir í frétt á vef Viðskiptablaðsins.
Þar segir að samkvæmt sölutölum séu nítján Range Rover Sport-jeppar á meðal nýskráðra bíla á þessu ári, en lúxusjeppinn kostar um fimmtán milljónir króna.
Bent er á að sala á nýjum fólksbílum hafi aukist um 33,9% í júní. Nýskráðir fólksbílar í mánuðinum eru 1.965 á móti 1.468 í sama mánuði í fyrra, en það er aukning um 497 bíla. Samtals hafa verið skráðir 6.377 fólksbílar á fyrstu sex mánuðum ársins og er það 31,9% aukning frá fyrri helmingi seinasta árs. Til samanburðar voru nýskráðir fólksbílar allt árið 2009 aðeins 2.020 talsins.