Bílaframleiðendur töpuðu á hjálparpakka

Ný rannsókn hagfræðinga við háskóla í Texas hefur leitt í …
Ný rannsókn hagfræðinga við háskóla í Texas hefur leitt í ljós að tilraun bandarískra stjórnvalda árið 2009 til að styrkja bílaframleiðendur hafði þveröfug áhrif. mbl.is/afp

Árið 2009 kynntu bandarísk stjórnvöld verkefnið „Cash for Clunkers“, þar sem eigendum ósparneytinna bíla gafst kostur á að fá allt að 4.500 dala styrk ef þeir skiluðu inn bílnum og keyptu sér nýjan.

Verkefnið var kynnt með þeim formerkjum að verið væri að taka mengandi og eyðslufreka bíla úr umferð og skipta út fyrir eyðslugrennri og umhverfisvænni bíla. Ekki síður var verkefninu ætlað að hjálpa bandarískum bílaframleiðendum í dýpstu lægð alþjóðlegu fjármálakreppunnar, enda myndi sala á nýjum bílum aukast.

Nú hefur rannsókn þriggja hagfræðinga við Texas A&M-háskólann leitt í ljós að í reynd töpuðu bílaframleiðendurnir á hjálparpakkanum.

Eru þá ótalin hagrænu áhrifin á markaðinn fyrir notaða bíla, og áhrif þess að Cash for Clunkers varð til þess að fjöldi ökufærra og brúkanlegra bíla var eyðilagður.

Hefðu keypt dýrari bíla

Wall Street Journal greinir frá því að þriggja milljarða dala peningagjöfin hafi örvað mjög bílasölu í þá tvo mánuði sem átakið stóð yfir, en ef ekki hefði verið fyrir Cash for Clunkers hefðu selst bílar fyrir 2,6–4 milljörðum dala hærri upphæð.

Ástæðan er sú að ef ekki hefði verið fyrir átakið hefðu neytendur á endanum keypt sér dýrari bíla.

Í stuttu máli rýndu hagfræðingarnir í rannsóknir á neytendum á Texas-markaðssvæðinu og komust að því að allstórt hlutfall þeirra sem nýttu sér tilboð stjórnvalda var í bílakaupahugleiðingum og hefði hugsað sér að kaupa nokkuð eyðslumikinn bíl með fleiri hestöfl, og um leið með hærri verðmiða.

Cash for Clunkers fylgdi það skilyrði að keyptur yrði sparneytinn bíll, og urðu því smærri bílar fyrir valinu með minni mótor, lægri verðmiða og þar með minni sölutekjur fyrir bílaframleiðendur.

WSJ bætir við að hvert tonn af koltvísýringi í útblæstri sem verkefnið sparaði hafi kostað á bilnu 237 til 288 dali, en samfélagslegur kostnaður af hverju koltvísýringstonni er metinn á 33 dali . ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina