Að sögn Benedikts Eyjólfssonar, forstjóra Bílabúðar Benna, verður nýr Porsche Cayenne kynntur í október.
„Það eru litlar sjáanlegar breytingar á honum eins og alltaf hjá Porsche en meira um vert það sem er undir niðri. Hann er líkari Macan, með grimmara útlit og aukast hestöfl í 262 og togið fer úr 550 Newtonmetrum í 580. Eins lækkar upptak í hundraðið úr 7,6 sekúndum í 7,3 en eyðsla í blönduðum akstri verður sex lítrar. Þessi bíll verður 13.990.000 kr. og þá vel búinn,“ sagði Benni um nýjan Cayenne.
Það er aldrei lognmolla hjá Benna þegar kemur að því að kynna nýja bíla. Eins og margir hafa eflaust tekið eftir er stutt í að Opel-merkið verði flutt til Bílabúðar Benna, en merkið verður kynnt með pompi og prakt í október og verða þá sýndir bílar sem ekki hafa sést hér á landi áður. Frekari kynning á Opel-merkinu bíður betri tíma en á næstu vikum verður endurkynnt merki sem Bílabúð Benna seldi á árum áður, sem er Ssangyong. „Þar má fyrst nefna nýjan Korando, sem er alvöru jeppi með læstu drifi,“ sagði Benedikt. „Minni jeppar sem eru sjálfskiptir eru margir orðnir framhjóladrifnir en þessi er fjórhjóladrifinn og hægt er að læsa millikassa. Ssangyong Rexton var kynntur í fyrra en hann kemur líka aftur. Rexton er alvöru jeppi á grind með háu og lágu drifi, sem er orðið sjaldgæft í bílum í dag,“ sagði Benedikt enn fremur. njall@mbl.is