Bílablaðamenn á Íslandi velja bíl ársins 2015: Einstaklega fjölbreytt úrval nýrra bíla

Þeir níu bílar sem komust áfram í flokkunum þremur. Skoda …
Þeir níu bílar sem komust áfram í flokkunum þremur. Skoda Octavia vann bæði í sínum flokki og hlaut flest stig. Hann var því valinn Bíll ársins 2014 og fékk söludeild Skoda hjá Heklu farandverðlaunagripinn Stálstýrið. Spennandi verður að sjá hvert gripurinn fer næst með Bíl ársins 2015.

Síðastliðna mánuði hafa bílablaðamenn á Íslandi gaumgæft og prófað þá nýju bíla sem komið hafa nýir á markað á þessu ári og koma því til greina í vali á bíl ársins 2015.

Tilkynnt verður um næstu mánaðamót hver hlýtur farandgripinn Stálstýrið og er þar með bíll ársins en að valinu stendur BÍBB, Bandalag íslenskra bílablaðamanna. Það skipa bílablaðamenn FÍB-blaðsins, Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Viðskiptablaðsins, og sjálfstætt starfandi bílablaðamenn.

Þýðingarmikið val

Gildi þess að velja bíl ársins hér á landi er mikið fyrir almenna kaupendur og seljendur því valið er sjálfstætt og endurspeglar óvilhallt mat bílablaðamanna á því hvað getur talist góður bíll fyrir íslenskar aðstæður. Þættir sem skipta þar miklu máli eru aksturseiginleikar, gæði, öryggi, hönnun, hagkvæmni, umhverfisþættir, rými og fleira í þeim dúr.

Í ár er úrvalið afbragðsgott og verða bílar valdir í fimm flokkum: Smábílar, fjölskyldubílar, jeppar og jepplingar, sportbílar og vistvænir bílar. Alls eru rúmlega þrjátíu bílar gjaldgengir í valið og er áhugavert að sjá hve mikil fjölgunin er í flokki vistvænna bíla sem njóta sífellt meiri vinsælda í takt við þverrandi olíulindir heimsins. Í flokk vistvænna bíla falla rafmagns- og tvinnbílar auk bíla sem knúnir eru öðrum orkugjöfum en hinum hefðbundnu dísil- eða bensínvélum.

Val fyrri ára

Bíll ársins hefur verið valinn af bílablaðamönnum hér á landi síðan árið 2004, að tveimur árum undanskildum. Á síðasta ári voru einungis þrír flokkar bíla: Minni fólksbílar, stærri fólksbílar og flokkur jeppa og jepplinga.

VW Golf var efstur í flokki minni fólksbíla, Skoda Octavia í flokki stærri fólksbíla og Honda CRV í flokki jeppa og jepplinga. Flest stig hlaut Skoda Octavia og var hann því bíll ársins 2014. Árið þar á undan var Mercedes-Benz A-Class valinn bíll ársins og árið 2011 varð Volkswagen Passat í metanútfærslu fyrir valinu.

Valið er aldrei auðvelt, enda margir prýðilegir nýir bílar sem standa kaupendum til boða. Það verður því áhugavert að sjá hvaða niðurstöðu bílablaðamenn komast að eftir prófanir, grúsk og heilabrot!

malin@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina