Allt frá efnahagsþrengingunum sem skullu á heiminum í kjölfar bankakreppunnar hefur bílasala átt undir högg að sækja. Víðast hvar hefur markaðurinn þó verið að rétta úr kútnum og vestanhafs eru þess teikn á lofti að bílasala sé að ná sér vel á strik.
Bílaframleiðandinn Chrysler, sem hefur sannarlega fengið sinn skerf af þrengingum gegnum árin, hefur til að mynda átt fantagott ár og sölumetin hríðfalla þar á bæ.
Í tilkynningu frá Chrysler segir að salan í ágústmánuði hafi aukist um 20% frá ágústmánuði í fyrra og sé söluhæsti ágústmánuður í tólf ár hjá fyrirtækinu. Alls seldi Chrysler 198.000 bíla í síðasta mánuði og eins og undanfarið var það Jeep sem fór fyrir vörumerkjum framleiðandans í sölu. Aukningin hjá merkinu nam heilum 49% milli ára og er glögglega til marks um að bílakaupendur í Bandaríkjunum eru í auknum mæli að skipta úr hefðbundnum bílum yfir svokalla „crossover SUV“ fjölnotajeppa. Vinsælasti jeppinn reyndist Cherokee en af honum seldust 19.000 stykki, en söluaukningin á Dodge Ram pallbílum nam 33% prósentum. Það segir sína sögu um það hvar styrkleikar samstæðunnar liggja að í heildina dróst fólksbílasala Chrysler milli ágústmánaða saman um 3% á meðan jeppasalan jókst um 28%.
jonagnar@mbl.is