Hópur fólks sem tilheyrir sérstakri síðu á Fésbókinni gæti átt á hættu að missa ökuréttindi sín í Frakklandi.
Hópur þessi setti upp vefsíðu þar sem varað er við hraðamælingum lögreglunnar. Hann telur 15 manns og svöruðu þeir allir til saka fyrir rétti í vikunni í bænum Rodez í Aveyron.
Sakarefnið er að með framferði sínu hafi hópurinn hagað sér eins og ratsjárvarar sem væru bannvara í Frakklandi.
Saksóknarinn Yves Delperie sakaði liðsmenn hópsins um að hefja sig ofar lögum og sagði þá engan rétt hafa til að segja 10.160 áskrifendum síðunnar hvar hraðamælingar eigi sér stað. Fór saksóknarinn fram á liðsmenn hópsins yrðu sviptir ökuréttindum á bilinu 15 daga til fjögurra mánaða.
Verjandi hópsins, Remy Josseaume, svaraði því til að fésbókarhópurinn hafi einungis verið að aðstoða fólk við að forðast „hættusvæði“ í umferðinni í samræmi við afar skýrar lögskýringar stjórnlagadómstólsins frá í fyrra sem heimiluðu það.
Boðað var að aðalmeðferð málsins lokinni, að dómur í málinu verði kveðinn upp 3. desember næstkomandi. Það gerir dómara málið flóknara til úrlausnar, að herlögreglan í öðrum hlutum Frakklands rekur sínar eigin fésbókar- og samfélagsvefjasíður þar sem staðsetning hraðamyndavéla er birt er skýrt og skilmerkilega sagt frá því hvar lögreglan sinnir hraðamælingum.
Þá hafa verið settar samskonar viðvörunarsíður á Fésbókinni í héruðunum Lot, Picardy og Tarn en ekki jafn umsvifamiklar og sú sem nú er fyrir dómi.