Samgönguviku lauk í gær með bíllausum degi, þar sem fólk var hvatt til að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn og um leið hugleiða hvernig hlúa mætti betur að umhverfinu.
Einn af viðburðum vikunnar var ráðstefna Grænu orkunnar sem haldin var á Grand Hotel sl. miðvikudag. Yfirskrift ráðstefnunnar var Vistvænar samgöngur – vegur eða vegleysa?
Fyrirlesarar voru margir, bæði innlendir og erlendir, og er óhætt að segja að á heildina litið hafi ráðstefnan verið einkar fræðandi. Greina mátti að mikil samstaða er á meðal þeirra sem koma að rekstri og innflutningi á vistvænum farartækjum, hvort heldur um er að ræða bíla knúna raforku eða öðrum vistvænum orkugjöfum.
Einn af áhugaverðari fyrirlestrum þessa dags var Electromobility in Akershus: Achievementa and policy towards the future, fluttur af hinni norsku Solveigu Schytz, formanni skipulags-, umhverfis- og viðskiptaþróunarnefndar Akershus County.
Hún fjallaði um hvernig stjórnvöld í Noregi hefðu frá árinu 2001 unnið markvisst að fjölgun rafbíla í umferðinni. Það var ekki einungis gert með því að fella niður virðisaukaskatt af rafbílum og með ívilnunum við innflutning á öðrum vistvænum bílum, þó svo að það sé grundvallaratriði. Í Noregi eru tæplega 40.000 rafbílar og er áætlað að í apríl á næsta ári verði þeir orðnir 50.000.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Schytz að hinn stórgóði árangur sem náðst hefur í Noregi sé ekki síst stjórnvöldum að þakka. „Öðruvísi hefði þetta ekki verið hægt. Frá fyrsta degi var það markmið ríkisstjórnarinnar að fjölga vistvænum bílum og var markið sett á að í apríl 2015 væri fjöldinn kominn upp í 50.000 bíla,“ segir Schyltz. Eigendur vistvænna bíla í Noregi geta lagt án endurgjalds í gjaldskyld stæði, þurfa ekki að greiða vegatolla, geta hlaðið bíla sína endurgjaldslaust víða og svo mætti lengi telja. Þegar markinu er náð í fjölda rafbíla mun þetta eflaust breytast smám saman eitt af öðru. Þessar ívilnanir voru gerðar til að rafbílavæða Noreg upp að vissu marki og þó að ekki sé kominn apríl má samt segja að það hafi tekist.
Schyltz er sannfærð um að hið sama megi gera hér á landi. „Ísland hefur alla burði til að vera öðrum fyrirmynd í notkun á vistvænum bílum. Það ætti að vera hægur leikur að rafbílavæða Ísland en til þess þarf fullan stuðning stjórnvalda því þetta er nokkurra ára verkefni sem krefst þess að ívilnanir séu einhverjar. Ég veit að hér á landi hefur verið erfitt að ákvarða framhaldið hvað vistvæna bíla varðar þar sem undanþága frá lögum um virðisaukaskatt fellur niður nú um áramótin,“ segir hún. Fleiri hafa haft af því áhyggjur að verð á rafbílum og öðrum vistvænum kostum rjúki upp um áramótin og margir lýst því yfir að rafbílavæðingin myndi líða undir lok því verðhækkunin yrði of mikil.
Núverandi ríkisstjórn Íslands hefur frá upphafi lýst áhuga á að efla vistvænar samgöngur, meðal annars í stjórnarsáttmálanum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að útlitið væri síður en svo svart hvað þessi mál varðaði. „Ákvörðun hefur verið tekin og ívilnanirnar verða framlengdar,“ sagði Ragnheiður Elín. Eflaust eiga margir eftir að fagna þessari ákvörðun ef marka má þann mikla samhljóm sem er á meðal meðlima Grænu orkunnar.
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku og verkefnastjóri Grænu orkunnar, er einn þeirra sem fagna því að undanþágan verði framlengd frá og með næstu áramótum. Hann segir að síðustu mánuðir hafi einkennst af óvissu um framtíð vistvænna bíla hér á landi. „Að stofna til verkefna sem yfirleitt ná yfir mjög langan tíma er mjög erfitt þegar ekki er vitað lengra fram í tímann. Öll verkefni sem tengjast vistvænum bílum eru í raun á ís þegar ekki er vitað hvernig framtíðin liggur fyrir,“ segir hann.
Ef við lítum aftur til Noregs má sjá að verkefnið um rafbílavæðinguna var miðað við fjórtán ár. Árið 2001 var litið til þess árangurs sem myndi nást árið 2015 og nú er sá árangur vel sýnilegur. Eðli málsins samkvæmt gerir lengri tíma stefna verkefni á borð við þetta mun auðveldara í framkvæmd. „Bílaframleiðendur hugsa aldrei bara 12 mánuði fram í tímann heldur verða þeir að hugsa um fjögur ár fram í tímann. Til þess að fá verkefni á borð við það sem Nissan kom með inn í landið þá var það vitað eitt og hálft ár fram í tímann,“ segir Jón Björn og vísar þar til hraðhleðslustöðva sem komið var fyrir víða. Það er því ekki bara spurning um hvort umboðin ráði við að selja bílana sem fluttir eru inn heldur er stóra spurningin alltaf hvort framleiðandinn úti í hinum stóra heimi hafi áhuga á að gera áætlanir og koma með bíla til landa þar sem brugðið getur til beggja vona. „Þeir hafa nefnilega verið til í að taka þátt í kostnaði og markaðssetningu. Rétt eins og Nissan sem leggur til hraðhleðslustaurana og fjármuni í verkefnið. Það er mjög mikilvægt fyrir Ísland að fá slík verkefni inn á jafnódýran máta því bílaframleiðendur sjá það alveg fyrir sér að Ísland geti orðið eins konar paradís vistvænna bíla,“ segir hann. Áhugi bílaframleiðenda er til staðar en þeir þurfa að vita hversu langt fram í tímann hægt er að gera áætlanir.
Rétt eins og hin norska Schyltz benti á þá kallar þetta allt á samvinnu og segir Jón Björn að samvinna við ríkisstjórnina geti orðið heillavænleg. „Það er alveg lag fyrir þessa ríkisstjórn að gera þetta til lengri tíma og fylgja því þannig eftir sem segir í stjórnarsáttmálanum. Það sem við værum til í að gera með ríkisstjórn Íslands er að móta skynsamlega stefnu. Við erum alveg á því sjálf að þetta sé ekki ívilnun sem eigi að vara endalaust og einhvern tíma þurfa vistvænir bílar að borga til samfélagsins eins og aðrir bílar,“ segir Jón Björn og nefnir sem dæmi að ef tryggt væri að undanþága gilti til ársins 2017 væri hægt að sækja um þátttöku í ýmiss konar verkefnum. „Ef stjórnvöld eru svona jákvæð í garð vistvænna samgangna er þetta stórkostlegt tækifæri núna sem við ættum að nýta okkur,“ segir framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku og verkefnastjóri Grænu orkunnar, Jón Björn Þráinsson.
malin@mbl.is