Það hyllir undir að rafkaplar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla heyri sögunni til. Þeirra gerist ekki þörf eftir að þráðlaus hleðslutækni kemur til skjalanna.
Þessa er ekki lengur að bíða en til ársins 2016 verði fyrirætlanir Mercedes-Benz að veruleika. Hefur þýski bílsmiðurinn þegar gert tilraunir með því að senda rafmagn þráðlaust niður í rafgeyma. Takmark hans er að geta boðið upp á slíkan tæknibúnað með bæði tvinnbílum og hreinum rafbílum innan tveggja ára.
Hinn nýi Mercedes S500 Plug-in tengiltvinnbíll verður að öllum líkindum sá fyrsti með þráðlausa móttöku rafmagns, en Mercedes hefur brúkað hann til að sýna hvernig þessi nýja rafflutningatækni virkar.
Kerfið er í raun lítill hleðslupúði sem stungið er í samband og liggur á gólfi bílskúrs eða bílastæðis og annað svipað stykki sem fest er undir vélarrými bílsins. Rafmagn flyst þarna á milli fyrir tilstilli rafsegulkrafta. Er sú aðferð alveg jafn skilvirk og flutningur með rafkapli og tekur um tvær stundir að fylla tóman rafgeym S-Class rafbílsins.
Mercedes segir tæknina með öllu skaðlausa og muni til dæmis heimiliskettinum ekki verða meint af þótt hann smokri sér yfir hleðslupúðann. Sömuleiðis á hann ekki að trufla gangráð hjartasjúklinga.
Enn er talsverð þróunarvinna eftir til að fullgera tæknina til brúks og leysa vanda sem hlýst af mismunandi jarðfirð bíla, þ.e. hæð gólfs vélarhússins yfir jörðu. Mercedes er ekki eitt að sýsla við þróun þessarar tækni, heldur á fyrirtækið í samstarfi við annan þýskan bílsmið um það, BMW. Takmarkið með því er að þróa staðalbúnað sem aðrir bílaframleiðendur gætu einnig notið síðar meir.