Starfsmenn Ford mótmæla

Frá mótmælum starfsmanna Ford á bílasýningunni í París. Ford Mustang …
Frá mótmælum starfsmanna Ford á bílasýningunni í París. Ford Mustang bifreið hafa þeir þakið áróðursmiðum. mbl.is/afp

Starfsmenn Ford hertóku eiginlega sýningarbás fyrirtækisins á bílasýningunni í París á laugardag og héldu þar í frammi mótmælum.

„Við viljum halda vinnunni okkar en ekki hlusta á neinn fagurgala,“ sögðu starfsmennirnir, um eitthundrað talsins, sem óttast um að missa vinnuna vegna boðaðra hagræðingaraðgerða hjá Ford.

Með mótmælunum vildu þeir tryggja að óánægja þeirra næði augum og eyrum forsvarsmanna Ford. Mótmælendur starfa í bílsmiðju Ford í Blanquefort, skammt frá Bordeaux.

„Berjumst sameinaðir til að bjarga vinnunni okkar“ var letrað á hvíta boli sem starfsmennirnir skrýddust allir sem einn. „Við viljum vinnuna, ekkert smjaður“ mátti lesa þar líka.

Lögreglumenn sem stóðu vörð við aðalinngang bílasýningarinnar voru ekki á því að hleypa starfsmönnum Ford inn í salarkynnin. Kom til stympinga og táragasi var beitt, en um síðir tókst samkomulag við lögregluna sem hleypti fólkinu inn.

„Við erum hingað komnir til að tjá þeim að án starfsfólks er Ford ekki neitt. Fyrirtækið græddi sex milljarða evra um veröld víða. Þeir standa aldrei við það sem þeir lofa. Starfsskilyrðin versna stöðugt og nú vilja þeir semja um sveigjanlegan vinnutíma,“ segir talsmaður starfsmannanna.

Frá mótmælum starfsmanna Ford á bílasýningunni í París. Ford Mustang …
Frá mótmælum starfsmanna Ford á bílasýningunni í París. Ford Mustang bifreið hafa þeir þakið áróðursmiðum. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina