Fá fyrstir vetnisbíl Toyota

Vetnisbíll Toyota á bílasýningunni í París.
Vetnisbíll Toyota á bílasýningunni í París.

Þýskaland, Bretland og Danmörk hafa auk Japans orðið fyrir valinu sem fyrstu markaðirnir sem vetnisbíllinn Toyota FCV verður  seldur á. Raðsmíði á honum verður hafin á næsta ári, 2015.

Skattafsláttur og fastmótaðar áætlanir um fjölgun tankstöðva fyrir vetni eru megin ástæður þess að Danir verða í hópi fyrstu ríkja sem vetnisbíllinn verður seldur á. Hann hefur hingað til gengið undir heitinu Toyota FCV en óvíst hvort sú nafngift haldi þegar nær dregur því að hann komi á götuna og fjöldasmíðin hefst.

Sem stendur er að finna þrjár áfyllingastöðvar fyrir vetni í Danmörku en þeim mun fjölga í 11 árið 2015.

Í vetnisbíl er í grundvallaratriðum vetni breytt í vatn og við þau efnaskipti verður til rafstraumur er knýr bílinn. Ekkert gróðurhúsaloft fellur til við orkuskiptin.

Hermt er að vetnisbíll muni draga ámóta langt á tankfylli og hefðbundinn bensínbíll og þar af leiðandi komast þeir mun lengra en rafbílar draga á fullri rafhleðslu.

Toyota FCV er álíka stór og Avensis en aðeins hærri og með lengra hjólhaf en það skýrist af því að vetnistankurinn og rafgeymarnir eru í bílbotninum.

Ekki liggur fyrir hvaða verðmiði verður á vetnisbíl Toyota en þýskir, breskir og danskir sérfræðingar skjóta á að hann verði seldur á sem svarar um 10 milljónum íslenskra króna. Er það næstum helmingi lægra verð en á vetnisbílnum Hyundai ix35 Fuel Cell, sem seldur hefur verið í Danmörku á 950.000 krónur, eða langleiðina í 20 milljónir íslenskra.

mbl.is