Greinendur og sérfræðingar um bílamarkaðinn sjá fram á gríðarlega jafna og harða samkeppni bandarísku bílrisanna þriggja í smíði og sölu pallbíla.
General Motors, gegnum Chevrolet og GMC, og Chrysler Ram hafa ákveðið að sækja harðar fram og narta í hinn stóra skerf Ford á markaði fyrir pallbíla. Hafa þeir valið góðan tíma til þess en Ford hefur dregið úr framleiðslu á 2014 árgerðinni af F-150 pallbílnum til að búa í haginn fyrir 2015 árgerðina; splunkunýja módelið sem að verulegu leyti er smíðað úr áli í stað stáls.
Sérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu LMC Automotive segir að hagnaðarprósenta bílsmiðanna tveggja muni lækka vegna aukinna til boða þeirra af afslætti sem þeir bjóði til að tæla kaupendur frá Ford. Tilboðin geri það að verkum, að kaupendur sem hafa ekki nennu til að bíða eftir F-150 muni gera afar góð kaup með haustinu en á þeim árstíma sækir pallbílasala venjulega mjög í sig veðrið.
Ford F-150 álbíllinn er fánaberi þrettándu kynslóðar bílsins sem verið hefur mest seldi pallbíll Bandaríkjanna í rúma fjóra áratugi. Framleiðslu á forveranum af 2014 árgerðinni var hætt fyrir nokkrum vikum í bílsmiðjunni í Dearborn í Michiganríki til að breyta búnaði og samsetningarlínum fyrir 2015-bílinn nýja. Hið sama verður gert á næsta ári í smiðju í Kansas City sem framleiðir einnig F-150 bílinn. Vegna smíðastopps í Dearborn áætlar Ford að sölutapið nemi sem svari 90.000 eintökum af pallbílnum vinsæla.