Herdís L. Storgaard, barnaslysavarnafulltrúi segir mikilvægt að fólk kaupi ekki notaða bílstóla fyrir börn sín, þekki þau ekki sögu stólanna. Hún segist reglulega fá ábendingar um notaða barnabílstóla sem keyptir hafa verið á nytjamörkuðum góðgerðarfélaga og á veraldarvefnum sem geti hreinlega verið dauðagildrur.
„Þetta er mjög áhættusamt, það þarf að hafa ákveðna sérfræðiþekkingu til að geta gert mat á því hvort búnaðurinn sé nothæfur eða ekki og það mat snýst ekki um útlit hans heldur um sögu hans og aldur,“ segir Herdís.
Hún fær reglulega fyrirspurnir um ástand stóla og segir að í einu tilfelli hafi umræddur stóll verið 25 ára gamall. „Þó að stóllinn líti vel út þá þarf ekki að spyrja að því að hann mun vera í frumeindum og barnið slasað ef að bíll lendir í árekstri, jafnvel þó hann sé ekki harður.“
Herdís segir að ekki sé nauðsynlegt að kaupa nýjan barnabílstóla til að tryggja öryggi barna enda sé ekkert að því að kaupa nýlegan notaðan stól af seljendum sem maður þekki til. Hún segir mikilvægt að foreldrar kynni sér vel hvenær stólar renna út, enda séu þeir fljótir að eyðileggjast.
„Þetta er viðkvæmur búnaður og fólk þarf að spyrja erfiðra spurninga þegar það kaupir notaðan stól.“ segir Herdís. „Þegar spurt er um tjón þarf ekki bara að spyrja hvort stóllinn hafi lent í árekstri heldur einnig hvort hann hafi dottið á gólfið ofan af borði og hvort hann hafi oft farið í farangursgeymslu í flugvél, slíkt er líka búið að rýra öryggisgildi stólsins.“
„Flestir framleiðendur taka fram að þegar tvö ungbörn hafa notað stólinn þurfi að skipta um beltin í honum, þegar búið er að opna og loka festingarnar á beltunum ákveðið oft og börnin búin að stækka og þrýsta á beltin treysta framleiðendur stólunum ekki lengur,“segir hún. Ætli foreldrar sér að nota stólinn undir þriðja barnið þarf því að fara með stólinn í verslun og láta panta ný belti, jafnvel þó svo að notkunartími stólsins sé ekki útrunninn.
Herdís segir mikilvægt að fólk fargi útrunnum bílstólum með viðeigandi hætti. „Hér á höfuðborgarsvæðinu hef ég verið í góðu samstarfi við Sorpu. Fólk getur farið með bílstóla þangað og Sorpa sér um að þeim verði fargað þannig að engin hætta sé á því að þeir fari aftur í sölu eða notkun.“