Kínverjar fá Ford Escort og er framleiðsluútgáfan tilbúin fyrir raðsmíði. Birtar hafa verið myndir af bílnum í Kína en hann verður kynntur almenningi á Guangzhou bílasýningunni sem framundan er síðar í nóvember.
Með þessu er gengur Escort-nafnið í endurnýjun lífdaga, en að stærð fellur nýi bíllinn á milli Ford Fiesta og Ford Focus. Meðal keppinauta verða bílamódel á borð við Skoda Rapid.
Escortinn er með framgrill eins og það kæmi úr smiðju Aston Martin en aðalljósin eru síðan keimlík þeim á Focusbílnum.
Í aflrásinni verður fjögurra strokka 1,5 lítra Ti-VCT bensínvél sem sögð er 115 hestöfl og skila 142 Nm togi. Áfastur henni er fimm hraða handskipting eða sex hraða sjálfskipting.
Hinn nýi Ford Escort kemur á götuna síðla í janúar og er sagður munu kosta frá 90.000 juan, sem jafngildir rúmlega 1,8 milljónum króna.