Rafbíll í Dakarrallið

Ökumennirnir Albert Bosch (l.t.v.) og Agustín Payá með forsvarsmönnum Acciona …
Ökumennirnir Albert Bosch (l.t.v.) og Agustín Payá með forsvarsmönnum Acciona við rallbílinn rafmagnaða.

Brotið verður blað í sögu Dakarrallsins í janúar næstkomandi er rafbíl verður teflt fram til keppni. 

Þetta er nýmæli því aldrei áður í sögu rallsins hefur bíll með rafmagnsmótor í aflrásinni tekið þátt í Dakarrallinu.

Það er spænskt bílalið sem kennt er við spænska orku- og byggingafyrirtækið Acciona. Engin brunavél verður í bílnum til að hjálpa upp á sakirnar þegar rafhleðslan minnkar, hér verður um 100% rafbíl að ræða. 

Ökumaður verður Albert Bosch og aðstoðarökumaður Agustín Payá. Mun bíllinn ganga undir heitinu Acciona 100% EcoPowered. Í honum verða fjórir stórir rafgeymar sem skipta má út eftir þörfum og endurhlaða.

Rafafl bílsins er metið vera 300 hestöfl og vegur rafmótorinn aðeins 80 kíló en venjuleg brunaél hefði verið 200 kílóum þyngri. Fyrir liggur leyfi mótshaldaranna fyrir því að skipta megi um rafgeyma í bílnum á 250 km fresti.

Með þátttöku sinni segist Acciona-fyrirtækið vilja ýta undir sjálfbæra orkuframleiðslu og hreina orku.  Hefur vistvænn bíll ekki áður keppt í svo mikilsmetinni keppni sem Dakarrallinu sem fram fer í 37. sinn og stendur yfir frá 4. til 17. janúar 2015. Leið ökumanna mun liggja um Argentínu, Bólivíu og Chile. Í þeim öllum þremur er Acciona með starfsemi á sviði orkuframleiðslu og rekur vatnsveitur.

mbl.is

Bloggað um fréttina