Aukinn hagvöxtur - aukin umferð

Reiknað er með að umferðin aukist í ár um 3,3% …
Reiknað er með að umferðin aukist í ár um 3,3% sem er þá í góðu samræmi við hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands uppá 3,5%. mbl.is/Ómar

Vegagerðin áætlar að umferðin á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist um 3% í nóvember borið saman við sama mánuð í fyrra. Þá er reiknað með því að umferðin á svæðinu í ár aukist um 3,3% og verði mesta umferð sem mælst hefur á einu ári hingað til.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, að þótt umferðin við síðustu mánaðamót hafi aukist aðeins minna en gert hafi verið ráð fyrir þurfi að leita allt aftur til ársins 2007 til að finna meiri aukningu milli nóvembermánaða.

Ennfremur segir að líkt og á hringveginum hafi umferð aukist að jafnaði um 1,7% í nóvember á milli ára á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005. Þessi aukning nú sé því tæplega tvöfalt meiri en meðaltalið.

„Samkvæmt reiknilíkani umferðardeildar Vegagerðarinnar er staðan orðin þannig að umferðin í desember 2014, má dragast saman um 13,5% miðað við síðasta ár til þess að heildarumferðin endi á pari við síðasta ár. Þessi sviðsmynd verður að teljast afar ólíkleg, því má nánast slá því föstu að nýtt met verði slegið í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu nú í ár, eins og fyrri spár höfðu bent til. Mestar líkur eru til þess að heildarumferðin verði um 3,0-3,5% meiri en hún var á síðasta ári sem myndi þýða um 1-1,5% meiri umferð en metárið 2008,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Þá er bent á að mikil fylgni sé á milli hagvaxtar og umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Reiknað sé með að umferðin aukist í ár um 3,3% sem sé þá í góðu samræmi við hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands upp á 3,5%.

mbl.is