Velkominn aftur, Opel

Opel Insignia Sports Tourer er til þess fallinn að hefja …
Opel Insignia Sports Tourer er til þess fallinn að hefja merki Opel aftur til vegs og virðingar eftir nokkur mögur ár. Virkilega vel heppnaður bíll.

Það þóttu nokkur tíðindi þegar Bílabúð Benna tók við Opel-umboðinu hérlendis á haustdögum. Færslan vakti athygli sem beindist um leið að bílunum sjálfum sem hafa tekið nokkrum stakkaskiptum undanfarið.

2014-línan frá Opel er um margt ákaflega lagleg útlits og flaggskipið Insignia er þar síst undanskilið. Ljóst er að Þjóðverjarnir í Rüsselsheim ætla sér stóra hluti og ef prófun undirritaðs á umræddri Insigniu er til vísbendingar um framhaldið er von á góðu úr þessari átt. Opel Insignina er fantagóður bíll.

Verulega fallegur skutbíll

Bíllinn sem prófaður var nefnist Opel Insignia Sports Tourer og er, eins og nafnið gefur til kynna, stationbíll eins og það er í daglegu tali kallað. Oft hefur hönnun slíkra bíla endað á einhvers konar valkreppu milli notagildis og fallegrar hönnunar en því er ekki að heilsa hér. Í stuttu máli sagt er bíllinn bráðlaglegur á alla kanta og furðanlega rennilegur miðað við skutbíl. Þar hjálpa til stórir hurðaflekar og lágar hliðarrúður, auk fallegra loftflæðilína sem liggja eftir hliðunum, frá stefnuljósi á frambretti og aftur að afturhjólaskálunum. Toppurinn er talsvert kúptur og ljær bílnum dýnamískan svip. Bæði framendinn og bakhlutinn eru hörkuvel heppnaðir og heildarsvipurinn er grípandi og flottur. 18 tomma álfelgur skemma heldur ekki fyrir og það verður að segjast eins og er að útlitið í heild grípur augað.

Að innan kemur Insignia líka skemmtilega á óvart og staðalbúnaðurinn er býsna vel útilátinn. Og langt mál er að telja hann upp í heild sinni en meðal þess sem gladdi voru áðurnefndar 18 tomma álfelgur, bakkmyndavél, LED-ljós, hitað og leðurklætt stýri (kom sér sérstaklega vel á frostköldum fullveldisdegi), nóg af aðgerðum í stýri, 7 tomma snertiskjár, rafdrifin opnun og lokun á skotthlera og svo mjóbaksstilling á ökumannssæti sem gerir meira en eflaust margan grunar. Þá gefur mælaborðið frá sér lágt gaumhljóð ef ökumaður freistast um of útfyrir hámarkshraðann á hverjum stað. Það er því óhætt að segja að vel sé í lagt því upplifunin var á þann veg að um talsvert dýrari bíl væri að ræða en raunin er.

Plássið fínt og eyðslan enn fínni

Skutbílar eru jafnan valkostur fjölskyldufólks og það spyr þess eðlilega hvort plássið sé nægt í Insigniu Sports Tourer. Það fer afbragðsvel um ökumann og farþega í framsæti og framúrskarandi útsýni úr framsætum eykur mjög á alla rýmistilfinningu. Reyndar er útsýnið í baksýnisspeglinum heldur takmarkað en bakkmyndavél kemur þar til skjalanna.

Fótarýmið er skiljanlega ekki eins ríflega skammtað í aftursætum en þar komast þó þrír fullorðnir þægilega fyrir. Þrjú börn hafa yfirdrifið pláss. Skottið er líka stórt atriði fyrir barnafjölskyldur og 540 lítrar er fínt rými. Þurfi að flytja stærri hluti má fella sætin nánast algerlega niður og þá þrefaldast farangursrýmið upp í heila 1530 lítra.

Fyrir bíl af þessari stærð voru eyðslutölur að loknum reynsluakstri sérlega ánægjulegar. Fyrir blandaðan akstur er eyðslan gefin upp sem 5,6 lítrar á hundraðið og undirritaður náði því nokkurn veginn þó að vindur væri með mesta móti um nýliðna helgi. Bíllinn er léttur og góður í stýri – jafnvel fullléttur – inni á bílastæðum og þrengri götum, og milli bæjarfélaga rennur hann létt og ljúft.

Þegar allt kemur til alls

Opel Insignia Sports Tourer er að framantöldu bíll sem hakar í flesta reitina þegar heilinn fær að ráða. Eins og allir vita sem keypt hafa bíl er það þó hjartað sem segir til um það í lok dags og það fylgir hér heilanum að málum. Útlitið, sannfærandi þétt hljóðið þegar dyrunum er lokað, sportleg fjöðrunin og viðmótið í mælaborðinu segir einfaldlega að mann langi í þennan bíl. Opel eiga hér afskaplega vel heppnað útspil og verður áhugavert að fylgjast með þeim í framhaldinu. Þetta fornfræga þýska merki er í fínu færi að marka sér sess sem framleiðandi þýskra gæðabíla. Það er ekki svo lítið hrós í sjálfu sér.

jonagnar@mbl.is

Öll umgjörð ökumanns er hin prýðilegasta og án þess að …
Öll umgjörð ökumanns er hin prýðilegasta og án þess að verið sé að splæsa í harðvið þá er efnisvalið fínt, leður, svört píanóáferð í bland við burstað stál og stór aðgerðaskjár.
Útvarp, bakkmyndavél og ýmis aðgerðastýring er komin í skjáinn.
Útvarp, bakkmyndavél og ýmis aðgerðastýring er komin í skjáinn.
Framendinn er sportlegur, jafnvel eilítíð aggressívur að sjá, og á …
Framendinn er sportlegur, jafnvel eilítíð aggressívur að sjá, og á sinn þátt í fallegum heildarsvip.
Farangursrýmið er firnagott og ef aftursætin eru felld niður býður …
Farangursrýmið er firnagott og ef aftursætin eru felld niður býður það upp á rúmlega 1500 lítra pláss. Insignia er áberandi rúmgóður bíll.
Mælaborðið er stílhreint og einfalt og bíllinn röskur af stað.
Mælaborðið er stílhreint og einfalt og bíllinn röskur af stað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina