Sandurinn allur í hjólförum

Hjólför á víð og dreif á ströndinni við Kleifarvatn eftir …
Hjólför á víð og dreif á ströndinni við Kleifarvatn eftir að breskir fjölmiðlamenn voru þar á ferð. Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur birt myndir sem teknar voru af ummerkjum utanvegaaksturs við Kleifarvatn. Tökulið breska blaðsins The Sunday Times sem festi sig í sandinum við vatnið hafði ekki óskað eftir tilskildum leyfum til að fá að mynda í Reykjanesþjóðvangi.

Eins og sagt var frá á mbl.is fyrr í dag undirbýr Umhverfisstofnun nú beiðni um lögreglurannsókn vegna utanvegaaksturs bresku fjölmiðlamannanna sem sjá mátti í myndbandi sem birtist meðal annars á vefnum Youtube. Þeir voru við reynsluakstur á nýjum Land Rover Discovery-jeppa.

Myndbandið hefur nú verið fjarlægt en samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur Umhverfisstofnun afrit af því. Myndatökuliðið hafði heldur ekki óskað eftir leyfum sem þeim er skylt að gera til að fá að mynda í friðlandinu.

Á myndunum sjást greinilega hjólför í sandinum á strönd Kleifarvatns en þær voru teknar skömmu eftir að tökuliðið var þar á ferðinni. Ekki er þó hægt að fullyrða að hjólförin séu öll eftir bresku fjölmiðlamennina.

Starfsmaður íslensks ferðaþjónustufyrirtækis sem sást koma breska bílablaðamanninum til aðstoðar þegar hann hafði fest sig í sandinum í myndbandinu sagðist í dag ekki mega tjá sig um atvikið. Ekki hefur náðst í eigendur ferðaþjónustufyrirtækisins sem vinnur með Land Rover að kynningunni fyrir erlendu blaðamennina.

Fyrri fréttir mbl.is:

Markaðssetning Íslands ömurleg

Aksturinn litinn alvarlegum augum

Umhverfisstofnun
mbl.is
Loka