6 milljóna jeppar í sjóinn

Mazda CX-5 jeppi
Mazda CX-5 jeppi Af vef Brimborgar

Fimm jeppar af gerðinni Mazda CX-5 á vegum Brimborgar voru á meðal þess sem fór í sjóinn þegar tuttugu gámar fóru útbyrðis af flutningaskipinu Dettifossi í gær. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, staðfestir þetta. Hann segir suma kúnnana hafa beðið lengi eftir bílunum. Sú bið lengist nú enn.

„Við fengum það staðfest í dag að við höfum átt fimm bíla sem voru í þessum gámum. Þetta eru sirka sex milljónir stykkið svo þetta eru ríflega þrjátíu milljónir,“ segir Egill. Fyrirtækið hafi haft átján bíla í skipinu en hinir virðist hafa sloppið.

Hluti af bílunum áttu að fara til viðskiptavina Brimborgar sem höfðu sérpantað þá fyrir þónokkru síðan í ákveðnum litum og með sérbúnaði. Egill segir að skortur hafi verið á þessari tegund og því sé vont að missa þá svona. Fyrirtækið er þó tryggt fyrir tjóninu.

„Við erum alltaf með farmtryggingu á öllu sem við flytjum inn svo við fáum það allt bætt. Það eru ekki nema þessi óþægindi fyrir kúnnana og vesen í kringum þetta,“ segir Egill um skaðann fyrir fyrirtækið.

Dettifoss kom til hafnar í kvöld.
Dettifoss kom til hafnar í kvöld. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina