Sigurður Nikulásson, sölustjóri varahluta hjá bílaumboðinu Öskju, segir að allnokkrar bílvélar hafi skemmst á nýliðnu ári vegna þess að ódýr framleiðsla af síum hefur verið notuð í þær.
„Fólk er kannski að spara sér 500 til 1.500 krónur með því að kaupa ódýrari síu en getur setið uppi með ónýta vél í staðinn. Vélar kosta allt frá 1,5 til 4 milljónir eða meira þannig að það er alveg ljóst að slík áhætta er ekki þess virði,“ segir Sigurður og ítrekar að verðmunurinn á góðum síum og lakari sé lítill sem enginn.
„Sumar smurstöðvar nota ekki upprunalegar síur í bifreiðir þegar eigendur mæta með bifreið sína í smurningu. Viðskiptavinurinn veit bara ekki betur. Hann heldur að hann sé að fá gæðavöru en oftar en ekki er verið að setja mjög ódýra vöru í bifreiðina án hans vitundar. Mikill munur er á upprunalegum loft-, smur-, frjó- og hráolíusíum frá framleiðanda og á þessum hlutum frá öðrum framleiðendum, sem er því miður verið að setja í bifreiðir á Íslandi og oft með slæmum afleiðingum,“ segir Sigurður.
Hann segir að þessi gæðamunur felist í því að önnur efni eru notuð í filterinn og þá sé einnig meira magn af filter notað í þá upprunalegu sem síar mun betur. „Oft sést mikill munur í lengd og breidd á milli upprunalegra sía og sía frá „gráa“ markaðnum. Ef við tökum t.d. loftsíur þá getur dregist falskt loft á milli, þar með óhreinindi og sandkorn sem berast inn á vélina og geta skemmt legur, stimpla og fleira. Við höfum oft séð smursíur skemma vélar. Þær hreinlega kremjast saman og filterinn í þeim á það til að leysast upp og dreifast um alla vél og getur skemmt hana og stíflað með gríðarlegum kostnaði fyrir eigendur.“
Sigurður vill benda bifreiðaeigendum á að þegar þeir panta tíma á smurstöð geta þeir óskað eftir að fá upprunalegar síur í bifreiðina frá umboðinu og smurstöðvarnar verða þá að bregðast við því. Bílaumboðið Askja keyri sem dæmi tvisvar á dag um alla höfuðborgina til verkstæða og smurstöðva sé þess óskað og sendi einnig tvisvar á dag út á land. Sigurður ráðleggur eigendum Mercedes-Benz og Kia að koma í smurningu í Öskju og ítrekar að farið sé með aðrar bíltegundir í smurningu til viðkomandi umboðsaðila.
„Þess má geta að með því að nota upprunalegar síur frá framleiðanda hækkar endursöluverð bifreiðarinnar, ábyrgð viðhelst og bifreiðin er mun seljanlegri með fullt hús stimpla frá bílaumboði í smurkortinu hvort sem er með nýja, nýlega eða eldri bifreið,“ segir Sigurður Nikulásson að lokum.
agas@mbl.is