Tveir þriðju hleðslustaura ónotaðir

Flestir Bretar hlaða rafbílana sína heima.
Flestir Bretar hlaða rafbílana sína heima. mbl.is/afp

Tveir af hverjum þremur hleðslustaurum fyrir rafbíla sem komið hefur verið upp í London er ónotaður, að sögn talsmanns breska bifreiðaeigendafélagsins RAC. 

Búið hefur verið í haginn fyrir rafbílavæðingu í London. Þar er nú að finna alls 905 hleðslustaura fyrir rafbíla. Af þeim voru aðeins 36% eða 324 staurar brúkaðir í júnímánuði í fyrra.

Engum bíl var í þeim mánuði stungið í samband við hina staurana 581.

Í júní 2013 voru staurarnir alls 892 og í þeim mánuði var aðeins fjórðungur þeirra notaður til hleðslu bíla. Ennfremur hefur komið í ljós, að 504 þeirra voru hvorki brúkaðir í júní 2013 né júní 2014.

Alls var rafbílum stungið 2234 sinnum í samband í júní 2013 í London en 4.678 sinnum í sama mánuði í fyrra. Sú breyting þykir endurspegla fjölgun rafbíla. Hleðslustaur við Victoria-lestarstöðina var sá sem mest var brúkaður í breska höfuðstaðnum. 

Talsmaður RAC segir að eigendur rafbíla hlaði þá fyrst og fremst heima hjá sér sakir þæginda sem því fylgir. „Menn kaupa ekki rafbíl geti þeir ekki hlaðið hann heima. Og eigendur rafbíla aka eigi heldur svo langt frá heimili sínu,“ segir hann.

Þessu til viðbótar má taka fram, að á vefsetrinu Source London er því haldið fram, að stór hluti rafhleðslustöðvanna í London séu ónothæfir vegna bilunar. Eigi það við um að minnsta kosti þriðjung hleðslustauranna. „Áður en frekara fjármagni er varið í fjölgun hleðslustaura í London ættum við að koma því í verk að gera þá nothæfa sem fyrir eru,“ segir talsmaður RAC.

mbl.is