Dæmi um að ekki hafi verið gert við öryggisbúnað í tjónabílum

Tjónabílar geta reynst hættulegir. Myndin er frá slysstað á Holtavörðuheiði …
Tjónabílar geta reynst hættulegir. Myndin er frá slysstað á Holtavörðuheiði 2007. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Í rannsóknum á banaslysum og öðrum umferðarslysum hefur það komið upp að viðhaldi hefur verið ábótavant og borið við að illa hefur verið gert við bifreiðar,“ segir Sævar Helgi Lárusson, verkfræðingur og rannsakandi hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, og á þar bæði við almennar viðgerðir og viðgerðir á tjónabílum sérstaklega.

Á forsíðu bílablaðs Morgunblaðsins í síðustu viku var fjallað um viðgerðir á tjónabílum og eftirlit með þeim. Lýstu þar sérfróðir yfir áhyggjum af því að ekkert eftirlit væri haft með slíkum viðgerðum og því að hver sem er gæti keypt tjónaða bíla á uppboðum.

Ófullnægjandi viðgerð

Skýrslur nefndarinnar eru aðgengilegar á vef hennar og tekur Sævar dæmi um eina eftirminnilega rannsókn nefndarinnar á banaslysi sem varð á Holtavörðuheiði síðla árs 2007. Í ljós kom að bíllinn, það sem farþegi lést, var tjónabifreið sem ekki hafði verið gert við sem skyldi. Svo vitnað sé orðrétt í skýrsluna þá segir þar eftirfarandi:

„Bifreiðin hafði verið búin öryggispúðum, en þeir höfðu sprungið út í árekstri sem átti sér stað í október 2003. Eftir slysið var bifreiðin keypt af tryggingafélagi hennar og hún svo endurseld 12 dögum síðar. Ekki hafði verið gert við öryggisbúnaðinn eftir slysið og voru sprungnir púðarnir enn í bílnum.“

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að báðir beltastrekkjararnir hafi verið sprungnir og því hvorki nýst ökumanni né farþega í slysinu. Þegar kemur að viðgerð tjónabíla ber að gera við þá í samræmi við fyrirmæli frá framleiðanda og í þessu tilviki kom skýrt fram hjá framleiðanda beltanna að þeim bæri að skipta út fyrir ný eftir mikið álag eða eftir að strekkjarar spryngju út. Sömuleiðis er sú krafa gerð að öryggispúðar séu virkir ef þeir eru í bílnum yfirleitt.

Bíll fer í umferð á ný

Nú kann einhver að spyrja sig hvernig á því standi að bifreið sem ekki er búin þeim öryggisbúnaði sem gengið sé út frá, fari út í umferðina á nýjan leik eins og í dæminu hér að ofan. Sævar segir að nefndin hafi í skýrslunni gert athugasemdir vegna þessa. „Þar vorum við með tillögur í öryggisátt um að reglunum yrði breytt í sambandi við þessa tjónabíla,“ segir hann.

Í niðurlagi skýrslunnar segir að tryggingafélagið hafi verið spurt hverjar vinnureglur félagsins væru við afgreiðslu tjónabíla þar sem öryggispúðar eða beltastrekkjarar hefðu sprungið út. Í svari félagsins sagði að félagið greiddi alltaf fyrir viðgerð á þessum búnaði í þeim tilvikum sem félagið greiddi fyrir viðgerð á bílnum. Ljóst er að þó tryggingafélög greiði fyrir slíkt þá er ekki fylgst með að viðgerðin fari fram.

Kötturinn í sekknum keyptur

Það getur verið ósköp erfitt fyrir hinn almenna kaupanda að ætla að átta sig á hvort í lagi sé með öryggisbúnað á borð við loftpúða, enda er búnaðurinn ekki sýnilegur fyrr en á hann reynir. Þess vegna er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar fest eru kaup á viðgerðum tjónabíl.

Annað sem erfitt getur verið að greina við kaup á viðgerðum tjónabíl er hvort gert hafi verið almennilega við burðarvirki og burðargrind. Eins og fram kom í fyrri umfjöllun þá eru vissir bitar í því sem ber bílinn uppi sem ekki má gera við heldur þarf að skipta þeim út en á því hafa verið misbrestir og í sumum tilvikum með hörmulegum afleiðingum. Síðsumars 2006 varð banaslys á Suðurlandsvegi.

Þar er talið víst að léleg viðgerð á burðarvirki bílsins hafi átt verulegan þátt í að áreksturinn hafi leitt ökumann til dauða. Segir í skýrslunni að meðal annars hafi frauðplasti verið sprautað inn í sílsa beggja megin og ljóst að sú vörn sem farþegarými átti að veita ökumanni var ákaflega lítil.

Í athugasemdum rannsóknarnefndar kom fram að því hefði verið beint til Umferðarstofu (sem nú heitir Samgöngustofa) af hverju ekki hafi verið gerð athugasemd við styrkleikamissinn í aðalskoðun á bílnum. Aukinheldur var lagt til að því væri beint til skoðunarstöðva að auka eftirlit með ryðskemmdum ökutækja. Eftir situr sú spurning hver eigi að hafa umsjón með a) viðgerðum burðarvirkis og b) viðgerðum á tjónabílum.

Er framrúðan rétt límd?

Eitt sem hér má nefna þó svo það geti tengst mun fleiri bílum en tjónabílum er ísetning framrúðunnar í bílinn. Sævar segir að töluvert hafi borið á að það sé ekki nægilega vel gert. „Þá gerist það að framrúðan dettur bara út. Framrúðan á bæði að halda hlutum inni í bílnum og utanaðkomandi hlutum frá því að fara inn í bílinn. Hún heldur við loftpúðann, þá aðallega farþegamegin að framan og er hluti af burðarvirkinu þó svo að það sé kannski ekki mikill burður í framrúðunni, sérstaklega þegar hún er brotin,“ segir Sævar Helgi Lárusson hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Afturför frá því fyrir hrun

Özur Lárusson er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og segir hann að töluvert beri á illa viðgerðum tjónabílum sem rata inn á gólf hjá fagmönnum innan sambandsins.

„Það sem komið hefur fram hjá þeim aðilum sem reka löggilt verkstæði er að þeir hafi orðið varir við aukningu á illa viðgerðum bílum sem þeir eru að fá til sín aftur. Þetta eru bílar sem hafa farið eitthvert annað í millitíðinni, inn í skúra eða skemmur, verið barðir til og settir á götuna og eiga að þeirra mati alls ekkert erindi út á götuna aftur,“ segir Özur.

Þetta er sá raunveruleiki sem blasir við fagmönnunum og má segja að þessi veruleiki sé afturför frá því sem var fyrir fáeinum árum. „Þetta var komið í þokkalegt horf á árunum fyrir hrun. Hins vegar hefur ástandið versnað eftir hrun hvað þetta varðar. Tryggingafélögin eru farin að selja þessa bíla á uppboðum hér og þar og það getur hver og einn keypt þá. Þetta var komið í nokkuð fastar skorður því þessir bílar voru eingöngu seldir þeim sem höfðu viðurkennt verkstæði til að gera við, ef þeir voru þá viðgerðarhæfir það er að segja. Ef þeir fóru þá ekki bara beint í niðurrif. Þetta er bæði mjög slæm og hættuleg þróun,“ segir Özur Lárusson hjá Bílgreinasambandinu.

Hver lítur eftir hverjum?

Samgöngustofa annast eftirlit með umferð og flestu því sem henni tengist. En hvernig er málum háttað með viðgerðir á tjónabílum? „Aðkoma Samgöngustofu að viðgerðum á tjónabílum er fyrst og fremst með því að hafa eftirlit með þeim aðilum sem annast viðgerðirnar. Samgöngustofa hefur þannig eftirlit með þeim aðilum sem gefa út hjólstöðu- og burðarvirkisvottorð sem og viðurkenndum réttingarverkstæðum. Eftirlitið felst einkum í því að fara yfir þau gögn sem tilheyra viðkomandi bifreið eftir að viðgerð er lokið,“ segir Árný Ingvarsdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa Samgöngustofu.

Aðspurð hvaða ferli hefjist þegar ábendingum er beint til Samgöngustofu í skýrslum Rannsóknarnefndar samgönguslysa er svarið eftirfarandi: „Þegar tjón ökutækis er það mikið að Rannsóknarnefnd Samgönguslysa er beðin um að skoða málið og hluti af tildrögum slyssins er mögulega vegna ófullnægjandi almennrar aðalskoðunar ökutækisins þá hefur nefndin sent athugasemdir vegna þess skoðunaratriðis til Samgöngustofu. Við slík tilfelli ef farið yfir hvernig má skoða það atriði betur og skoðunarhandbók ökutækja breytt ef svo ber undir,“ segir Árný Ingvarsdóttir um eftirlitið með viðgerðum tjónabílum.

Fjölgun illa viðgerðra tjónabíla í umferðinni er sannarlega áhyggjuefni.
Fjölgun illa viðgerðra tjónabíla í umferðinni er sannarlega áhyggjuefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jón Sigurðsson
Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: