Leaf leysir af hólmi limúsínu

Borgarstjóri Newcastle við nýja embættisbíl sinn, rafbílinn Nissan Leaf.
Borgarstjóri Newcastle við nýja embættisbíl sinn, rafbílinn Nissan Leaf.

Kannski er það tímanna tákn, en bæjarstjórinn í Newcastle, hinum gamla höfuðstað kolavinnslu í Bretlandi, hefur keypt embættinu rafbíl.

George Pattison mun vera fyrsti breski bæjarstjórinn til að gera rafbíl að embættisbíl. Mun því bílstjóri hans skutla honum héðan í frá í erindum embættisins á Nissan Leaf. Og segja má að bíllinn sé í kolalitum því hann er biksvartur.

Kolavinnsla er ekki lengur fyrir hendi í norðausturhéruðum Englands í þeim mæli sem áður var, ef nokkur er. Nýi embættisbíllinn brennir ekki jarðefnaeldsneyti eins og limúsínan sem Nissan Leaf leysir af hólmi, gengur einungis fyrir raforku.

Nýi bíllinn er kyrfilega merktur með innsigli Newcastle-upon-Tyne á hliðunum og framan og aftan ber hann elstu númeraplötu Norðaustur-Englands, OBB1.

Kaupin á Nissan Leaf sem borgarbíl eru sögð liður í þeim skuldbindingum borgarstjórnarinnar að nýta fremur endurnýjanlega orkugjafa í stað takmarkaðra orkugjafa og ganga betur um umhverfið en áður. 

Stærsta samsetningarsmiðja Nissan Leaf er í næsta nágrenni við Newcastle, nánar tiltekið í Sunderland við ósa árinnar Tyne. Nissan Leaf dregur 200 kílómetra á rafhleðslu, en hlaða má tóma geyma bílsins upp í 80% hleðslu á hálftíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina