Fljótari á minni hraða

Borgarstarfsmenn í París skipta um hraðaskilti við hringveginn um borgina …
Borgarstarfsmenn í París skipta um hraðaskilti við hringveginn um borgina í byrjun janúar fyrir ári er hámarkshraði var lækkaður úr 80 í 70 km. mbl.is/afp

Árangur af hraðalækkun úr 80 í 70 km/klst. á hringveginum fjölfarna um París þykir það góður að nú er í athugun hvort lækka skuli hámarkshraðann enn frekar. Hraðalækkunin kom til framkvæmda 10. janúar í fyrra en um veginn fara að jafnaði 1,3 milljónir bíla á sólarhring. Á þeim tíma hefur ekki aðeins slysum fækkað heldur og hefur ferðatími styst þótt ótrúlegt kunni að hljóma.

Christophe Najdovski, aðstoðarborgarstjóri með forsvar fyrir umferðarmálum, segist í ljósi alls þessa hlynntur því að hámarkshraðinn verði lækkaður enn frekar, eða í 50 km/klst., á tímabilinu frá kl. 10 á kvöldin til klukkan sjö á morgnana.

Najdovski, sem er úr flokki umhverfissinna (EELC), segir við blaðið Le Parisien að þetta sé persónuleg tillaga hans sjálfs en ræða verði hana fordómalaust áður en fengin verður niðurstaða í því hvort haldið verði áfram með hana. Hann segist vilja stuðla að enn frekari fækkun umferðarslysa og ennfremur draga úr hávaðamengun í þágu um 100.000 manns sem búa við innri jaðar hringvegarins sem umlykur borgina.

Slysum fækkaði

Takmark þáverandi stjórnenda Parísar með hraðalækkuninni var að minnka óhreinindi í borgarloftinu um 5%, fækka slysum um 23% og fækka alvarlegum bílslysum og banaslysum um 65%. Og hvernig skyldi hafa til tekist?

Í sameiginlegri skýrslu Parísarborgar og frönsku lögreglunnar um árangur af hraðalækkuninni kemur fram, að umferðarslysum hafi fækkað um 15,5% á hringveginum og verið færri en nokkru sinni í áratug. Fækkaði þeim úr 742 í 627 en á sama tíma fjölgaði slysum á Stór-Parísarsvæðinu, Ile-de-France. Slösuðum fækkaði á hringveginum milli ára úr 908 í 776, en hið eina neikvæða er að banaslysum fjölgaði. Biðu sjö manns bana í slysum á hringveginum 2014 miðað við fjóra árið áður.

Minni teppur, betra flæði

Þar kemur einnig fram að dregið hafi úr umferðarteppum og flæði á veginum og inn og út af honum hafi batnað með lækkun hámarkshraðans. Umferðin hafi liðast áfram á jafnari ferð og engin „harmoníkuáhrif“ lengur sem hægðu á henni við akreinar út af hringveginum. Fyrir bragðið hafi meðal ferðahraði að morgni aukist úr 32,6 km árið 2013 í 38,4 km/klst. árið eftir, 2014, og meðalferðhraði að kvöldi aukist úr 30,3 km í 33,9 km/klst.

Loks segir að hávaðamengun hafi minnkað sem svarar því að bílum á hringveginum hafi fækkað um 25% á daginn og 10% á kvöldin og nóttunni.

Athygli vekur hins vegar, að útgefnar sektir vegna hraðaksturs á hringveginum rúmlega þrefölduðust. Voru 138.138 árið 2013 en 461.596 á nýliðnu ári. Að miklu leyti er skýringin rakin til mikillar fjölgunar hraðaratsjáa á hringveginum en þær eru nú 16 í stað 7 lengstan part ársins 2013.

Bíleigendur voru á móti

Á sínum tíma lagðist hagsmunafélag bíleigenda, 40 Millions d'Automobilistes, gegn hraðalækkuninni. Gagnrýndi félagið hana harðlega og sagði einu leiðina til að draga úr mengun að fækka gömlum bílum í umferð. Breytingin var gerð tveimur mánuðum fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar í Frakklandi, en sósíalistar hafa ráðið í ráðhúsi Parísarborgar frá í mars 2001 er Bertrand Delanoe leiddi flokkinn til sigurs í borgarstjórnarkosningunum. Borgarstjóraefni hægrimanna í kosningunum í fyrra, Nathalie Kosciusko-Morizet, hét því að hækka hámarkshraðann aftur næði hún kjöri en kvaðst myndu banna akstur vörubíla og hópferðabíla sem stæðust ekki strangar kröfur Evrópusambandsins (ESB) um losun gróðurhúsalofts.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka