Innan skamms gæti svo verið, að fleira ungt fólk falli í valinn ár hvert fyrir byssu í Bandaríkjunum en deyja í bílslysum.
Að sögn tímaritsins The Economist gæti það jafnvel gerst þegar á þessu ári að fleiri 25 ára og yngri bíði bana af völdum byssuskota en í umferðarslysum. Segir blaðið þróunina að þakka miklum framförum í öryggi bíla, stífari reglum um leyfilegt áfengismagn í blóði undir stýri, aukinni sætabeltisnotkun og harðari kröfum fyrir útgáfu ökuleyfa til ungs fólks.
Og með áframhaldandi þróun gæti svo farið fyrr en varði, segir í blaðinu, að þetta ætti við um alla aldurshópa; að fleiri deyi vegna byssunotkunar en í bílslysum.
Þessir spádómar byggjast á rannsóknarskýrslu frá Framfaramiðstöð Ameríku (CAP) sem sérhæfir sig í ráðgjöf og greiningu á opinberri stjórnsýslu og stefnu.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðvegaöryggisstofnun Bandaríkjanna (NHTSA) biðu alls 32.719 manns bana í umferðinni þar í landi árið 2013, en nýrri upplýsingar liggja ekki enn fyrir. Var það 24% fækkun miðað við árið 2004. Segir blaðið að ganga megi út frá því að þessi tala eigi bara eftir að lækka er nýrri og öruggari bílar, með auknum árekstrarvörnum, leysa gamla af hólmi. Hámarki mun það ná er til sögunnar koma sjálfakandi, nettengdir bílar sem geta sagt fyrir um umferðarslys áður en þau verða.
Til samanburðar lét 32.351 lífið af völdum skotvopna í Bandaríkjunum árið 2011, en nýrri upplýsingar liggja ekki fyrir. Að baki tölunni eru aðallega dauðsföll vegna sjálfsvíga, slysaskota og heimilisofbeldis. CAP-stofnunin bendir á, að gjörólíkt bílaiðnaðinum sé miklu minna eftirlit og regluverk lausara um skotvopnin og tilraunir til að takmarka byssueign og notkun hafa mætt harðri og áframhaldandi andstöðu Riffilsfélags Bandaríkjanna (NRA), en það eru afar voldug samtök.
agas@mbl.is