Ekið á um 50 ljósastaura

Ekið var á um 50 ljósastaura í umsjá Orkuveitunnar og Orku náttúrunnar í desember og janúar. Tjónið gæti numið allt að 10 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR.

Fyrirtækin tvö sjá um rekstur um það bil 44.500 ljósastaura á svæðinu frá Garðabæ upp á Kjalarnes. Á milli stauranna liggja tæplega 1.600 kílómetrar af rafstrengjum. Þessi búnaður er í eigu sveitarfélaga, Vegagerðarinnar og í sumum tilvikum sjá fyrirtækin um lýsingu á einkalóðum.

Í desember og janúar hefur verið óvenjulega mikið um tjón á staurunum og nánast eingöngu vegna þess að ekið var á þá. Um fimmtíu staurar hafa skemmst. Í um 30 tilvikum var  tilkynnt um tjónið en í 20 var ekið af vettvangi án þess að tilkynna um það. Þrír staurar brotnuðu í veðurham og strætóskýli fauk á einn.

„það er mikilvægt að látið sé vita af tjóni á ljósastaurum, rafmagnskössum og slíkum búnaði til að draga úr hættu á því að vegfarendur fái straum, hafi vírar til dæmis slitnað.

Algengt er að það kosti 150-200 þúsund krónur að gera við hvern staur. Það gefur okkur heildartjón allt að tíu milljónum króna,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina