Umferðin eykst en slysum fækkar

Öllum tegundum slysa hefur fækkað utan þeirra sem varða gangandi …
Öllum tegundum slysa hefur fækkað utan þeirra sem varða gangandi vegfarendur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Búið er að koma í veg fyrir fjölmargar áhættur á vegum landsins sem hefðu annars geta valdið alvarlegum slysum í umferðinni. Kom þetta fram á umferðarþingi Samgöngustofu í morgun þar sem Ágúst Mogensen, forstöðumaður rannsóknarnefndar samgönguslysa, fjallaði um þróun síðustu ára hvað varðar fækkun banaslysa í umferðinni.

„Árið 2000 létust 34 í umferðinni. Slysin áttu sér helst stað í kringum þéttbýlisstaði en auk þess voru mörg þeirra á Suður- og Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Árið 2005 voru mun færri banaslys í umferðinni þar sem 19 létust en mest var fækkun slysa á Reykjanesbraut. Þá staðreynd ber að skoða sérstaklega í ljósi þess að ári áður var lokið við fyrsta áfangann í tvöföldun Reykjanesbrautar,“ segir Ágúst. 

„Við höfum unnið markvisst að því síðustu ár að fækka þessum áhættuvöldum í umferðinni, til að mynda með því að aðgreina umferð úr gagnstæðum áttum. Vegabætur og aðrar framkvæmdir hafa þannig haft áhrif á fækkun slysa.“

Nær öllum tegundum slysa fækkar

Við söfnun gagna tók Ágúst eftir því að öllum tegundum slysa hefur fækkað frá aldamótum, nema þeim slysum þar sem ekið er á gangandi vegfarendur. „En í grófum dráttum hefur okkur tekist að fækka bæði banaslysum og almennum slysum í umferðinni. Þegar litið er til aldurs orsakavalda þá hefur slysum fækkað í nær öllum hópum en þó einkum og sér í lagi erum við að sjá töluverða fækkun alvarlegra slysa hjá ungum ökumönnum sem er mjög ánægjulegt,“ segir Ágúst og bendir á líklegar skýringar á því.

„Unnið hefur verið að þeim málaflokki og breytingar gerðar á skilyrðum ökuréttinda og þeim námskeiðum sem ökumenn þurfa að gangast undir eftir alvarleg umferðarlagabrot.“

Minni umferð í kjölfar aukins atvinnuleysis

Ágúst benti einnig á ýmsa þætti sem gætu hafa orsakað þessa fækkun umferðarslysa.

„Vitað er að það er talsverð fylgni á milli efnahagsástands og tíðni umferðarslysa og til að mynda hafa margar rannsóknir sýnt fram á fækkun slysa í kjölfar aukins atvinnuleysis. Ástæður þessa geta verið minni einkaneysla sem dregur úr álagi á vegakerfinu og minnkar þannig umferð. Þetta er þekkt stærð í þessum fræðum,“ segir Ágúst og bætti við að hann vildi ekki draga úr þeim áhrifum sem fylgdu í kjölfar kreppunnar.

„Ef við horfum hins vegar á heildarmyndina hvað varðar áætlaðan akstur í milljón eknum kílómetrum hér á landi, þá blasir við okkur önnur mynd. Vissulega dró úr akstri á kreppuárunum en árið 2013 þá voru keyrðir álíka margir kílómetrar og árin 2005 og 2006. Umferðin er því að aukast á ný en slysin haldast þó ekki í hendur við þá þróun. Við ökum núna mun meira en árið 2000, þar sem 34 létust, á meðan fjórar manneskjur létust í fyrra. Skýringin um minnkandi umferð er því ekki einhlít.“

Öryggi bíla eykst ótrúlega hratt

Öryggi bíla hefur einnig farið batnandi og nefndi Ágúst að það hefði tvímælalaust áhrif á alvarleika slysanna. „Ný rannsókn samtaka tryggingafélaga í Bandaríkjunum sýnir fram á að líkindi á banaslysi eru þriðjungi minni í bíl sem framleiddur var árið 2011 miðað við þann sem framleiddur var árið 2009. Allar þessar breytingar sem verið er að gera á hönnun bíla mun hjálpa okkur að draga áfram úr banaslysum í framtíðinni.

Einna mikilvægasti þátturinn er þó sú umferðaröryggisáætlun sem við höfum starfað eftir undanfarin ár. Hér er kerfisbundin nálgun sem byggir á greiningu á orsökum umferðarslysa. Allar þær þjóðir sem vinna skipulega eftir slíkum áætlunum ná framförum í þessum málaflokki. Kreppur munu koma og fara og tilviljanakenndar sveiflur munu alltaf hafa eitthvað að segja, en markviss vinnubrögð í umferðaröryggisstarfi munu skila okkur árangri.“

Banaslysum í umferðinni hefur fækkað frá aldamótum.
Banaslysum í umferðinni hefur fækkað frá aldamótum. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina