Á hverju ári eru tvær verðlaunaafhendingar sem vekja mesta athygli í bílaheiminum, en það eru „Bíll ársins 2015“ í Genf og „Heimsbíll ársins 2015“ en verðlaun fyrir þann bíl eru veitt á bílasýningunni í New York í apríl.
Nýlega var tilkynnt hvaða bílar eru tilnefndir í þeirri síðarnefndu en tilkynnt var hvaða bílar voru tilnefndir í Genf fyrir áramót. Athyglisvert er að skoða þessa tvo lista og sérstaklega að sjá hvaða bílar ná inn á báða listana. Hér eru fyrst þeir bílar sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar í New York:
BMW 2 Active Tourer
Citroën C4 Cactus
Ford Mustang
Hyundai Genesis
Jeep Renegade
Mazda2
Mercedes-Benz C-lína
Mini Hardtop
Nissan Qashqai
Volkswagen Passat
Nú styttist óðum í hina árlegu bílasýningu í Genf sem haldin er í byrjun mars ár hvert. Sýningin er sú önnur stærsta í Evrópu á eftir sýningunum í París og Frankfurt sem skiptast á að halda sýningu. Meðal hápunktanna í Genf er án efa tilkynning um það hvaða bíll hlýtur titilinn „Bíll ársins í Evrópu 2105“. Til þess að komast á listann þarf bíllinn að vera af nýrri kynslóð, vera kominn á markað um áramót og hafa áætlaða sölu um 5.000 eintök að lágmarki ár hvert. Alls var 31 bíll í forvalinu að þessu sinni og hér eru þeir sjö sem komust í úrslit:
BMW 2 Active Tourer
Citroën C4 Cactus
Ford Mondeo
Mercedes-Benz C-lína
Nissan Qashqai
Renault Twingo
Volkswagen Passat
Eins og sjá má voru það aðeins fjórir evrópskir bílar og einn japanskur sem náðu inn á báða listana. BMW 2 Active Tourer er alveg nýr fjölskyldubíll frá BMW sem er fyrsti framdrifni bíll BMW og hefur þegar verið kynntur hér á landi. Citroën C4 Cactus verður frumsýndur hérlendis 7. mars næstkomandi en hann hefur hlotið á þriðja tug verðlauna í mörgum löndum og verður að teljast meðal líklegra sigurvegara. Mercedes-Benz C-lína var kynntur á Íslandi á síðasta ári eins og Nissan Qashqai og voru þeir báðir í úrslitum á vali á bíl ársins á Íslandi 2015 þar sem sá japanski náði öðru sæti. Að lokum er það Volkswagen Passat sem einnig náði inn á báða listana en hann var kynntur í nóvember í Evrópu en kemur á markað á Íslandi í mars. Athyglisvert verður að fylgjast með valinu að þessu sinni sem verður ljóst Evrópumegin 2. mars næstkomandi. njall@mbl.is