Hverjir verða bílar ársins 2015?

Þótt Citroën C4 Cactus beri C4 nafnið er botnplatan ekki …
Þótt Citroën C4 Cactus beri C4 nafnið er botnplatan ekki frá þeirri fjölskyldu heldur ný af nálinni. Bíllinn er milli stærðarflokka og hefur vakið athygli fyrir gott verð og hagkvæmni. Grunnvélin er þriggja strokka og Cactus hefur sópað að sér verðlaunum upp á síðkastið.

Á hverju ári eru tvær verðlaunaafhendingar sem vekja mesta athygli í bílaheiminum, en það eru „Bíll ársins 2015“ í Genf og „Heimsbíll ársins 2015“ en verðlaun fyrir þann bíl eru veitt á bílasýningunni í New York í apríl.

Nýlega var tilkynnt hvaða bílar eru tilnefndir í þeirri síðarnefndu en tilkynnt var hvaða bílar voru tilnefndir í Genf fyrir áramót. Athyglisvert er að skoða þessa tvo lista og sérstaklega að sjá hvaða bílar ná inn á báða listana. Hér eru fyrst þeir bílar sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar í New York:

BMW 2 Active Tourer

Citroën C4 Cactus

Ford Mustang

Hyundai Genesis

Jeep Renegade

Mazda2

Mercedes-Benz C-lína

Mini Hardtop

Nissan Qashqai

Volkswagen Passat

Úrslitin fyrst ljós í Genf

Nú styttist óðum í hina árlegu bílasýningu í Genf sem haldin er í byrjun mars ár hvert. Sýningin er sú önnur stærsta í Evrópu á eftir sýningunum í París og Frankfurt sem skiptast á að halda sýningu. Meðal hápunktanna í Genf er án efa tilkynning um það hvaða bíll hlýtur titilinn „Bíll ársins í Evrópu 2105“. Til þess að komast á listann þarf bíllinn að vera af nýrri kynslóð, vera kominn á markað um áramót og hafa áætlaða sölu um 5.000 eintök að lágmarki ár hvert. Alls var 31 bíll í forvalinu að þessu sinni og hér eru þeir sjö sem komust í úrslit:

BMW 2 Active Tourer

Citroën C4 Cactus

Ford Mondeo

Mercedes-Benz C-lína

Nissan Qashqai

Renault Twingo

Volkswagen Passat

Fimm bílar á báðum listum

Eins og sjá má voru það aðeins fjórir evrópskir bílar og einn japanskur sem náðu inn á báða listana. BMW 2 Active Tourer er alveg nýr fjölskyldubíll frá BMW sem er fyrsti framdrifni bíll BMW og hefur þegar verið kynntur hér á landi. Citroën C4 Cactus verður frumsýndur hérlendis 7. mars næstkomandi en hann hefur hlotið á þriðja tug verðlauna í mörgum löndum og verður að teljast meðal líklegra sigurvegara. Mercedes-Benz C-lína var kynntur á Íslandi á síðasta ári eins og Nissan Qashqai og voru þeir báðir í úrslitum á vali á bíl ársins á Íslandi 2015 þar sem sá japanski náði öðru sæti. Að lokum er það Volkswagen Passat sem einnig náði inn á báða listana en hann var kynntur í nóvember í Evrópu en kemur á markað á Íslandi í mars. Athyglisvert verður að fylgjast með valinu að þessu sinni sem verður ljóst Evrópumegin 2. mars næstkomandi. njall@mbl.is

BMW 2 Active Tourer keppir við bíla eins og Mercedes-Benz …
BMW 2 Active Tourer keppir við bíla eins og Mercedes-Benz B-línu og Volkswagen Golf Sportsvan og er með höfuðáherslu á rými. Hann deilir vélum með nýjum Mini en sú öflugasta er tveggja lítra sem skilar 231 hestafli.
Þótt sala á bílum í þessum stærðarflokki hafi minnkað í …
Þótt sala á bílum í þessum stærðarflokki hafi minnkað í Evrópu virðist það ekki hafa áhrif á vinsældir VW Passat. Þetta er áttunda kynslóð hans og byggist hún á sömu MQB grunnplötu og VW Golf er byggður á. mbl.is/VW
Nissan Qashqai var frumkvöðull í sínum flokki smájepplinga og ný …
Nissan Qashqai var frumkvöðull í sínum flokki smájepplinga og ný kynslóð hans heldur því merki á lofti. Hann er stærri en áður og betur búinn og vinsælustu vélarnar eru 1,5 og 1,6 lítra dísilvélar. Qashqai hefur selst gríðarlega vel og þykja útlit sem og akstur hreint fyrirtak.
Ný Mercedes-Benz C-lína er ekki bara stærri og rúmbetri heldur …
Ný Mercedes-Benz C-lína er ekki bara stærri og rúmbetri heldur einnig mun léttari en áður, þökk sé mikilli notkun á áli og hágæðastáli. Fjöldi véla er í boði, eins og öflug 333 hestafla V6 bensínvél og einnig tvinnbíll með 231 hestafla dísilvél.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina