Hátt í 700 einbreiðar brýr á Íslandi

Það eru alls 22 einbreiðar brýr sem tilheyra sveitarfélaginu Hornafirði.
Það eru alls 22 einbreiðar brýr sem tilheyra sveitarfélaginu Hornafirði. mbl.is/RAX

Á þjóðvegakerfinu á Íslandi eru 694 einbreiðar brýr. Af þeim eru 197 einbreiðar brýr þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Meðalaldur einbreiðra brúa er 50 ár. Fjöldi brúa í umsjón Vegagerðarinnar er um 1.190 talsins.

Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Haraldar Einarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Hún segir ennfremur, að gert sé ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til breikkunar brúa í samgönguáætlun.

Flestar einbreiðar brýr þar sem hámarkshraði er 90 km/klst eru í Suðurkjördæmi, eða 73 talsins. Norðvesturkjöræmdi kemur næst á eftir með 61 brú, þá Norðausturkjördæmi með 57 og alls eru sex einbreiðarbrýr með þennan hámarkshraða í Suðvesturkjördæmi. 

Flestar, eða 22 talsins, eru í sveitarfélaginu Hornafirði.

Mikið verk óunnið

Haraldur spyr ennfremur, hvort áætlun sé til í ráðuneytinu um að ljúka tvöföldun þessara brúa.

Í svari ráðherra segir, mikill árangur hafi náðst í fækkun einbreiðra brúa á undanförnum áratugum. Segja megi að verstu staðirnir á umferðarmestu vegunum hafi verið lagfærðir að mestu. Hins vegar sé mikið verk óunnið.

„Í mörgum nýbyggingum og endurbyggingum vega eru gerðar nýjar brýr sem koma í stað annarra gamalla og oftast einbreiðra brúa. Í vegáætlunarhluta samgönguáætlunar 2011–2022 er gert sérstaklaga ráð fyrir fjárveitingu til breikkunar einbreiðra brúa að upphæð 1.500 millj. kr. á tímabilinu,“ segir í svarinu.

„Þær 197 brýr sem greint er frá hér að framan eru samtals 9.436 m að lengd. Stærðargráða kostnaðar við að endurgera brýr af slíkri lengd og tvöfaldar að breidd gæti verið 30 milljarðar. Til viðbótar kæmi síðan kostnaður við vegagerð sem er mismikill eftir aðstæðum á hverjum stað. Verkefnið er því gríðarlega stórt.

Ekki er lengur eins mikið um áberandi slysastaði við einbreiðar brýr í vegakerfinu enda hefur verið gert átak í að merkja einbreiðu brýrnar sérstaklega og á áberandi hátt,“ segir ennfremur.

Fækka einbreiðum brúm jafnt og þétt

Haraldur spyr einnig hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir því að fækka einbreiðum brúm og ef svo er, munu merki þess sjást í næstu samgönguáætlun.

„Eins og áður segir er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til breikkunar brúa í samgönguáætlun. Eins mun einbreiðum brúm væntanlega fækka jafnt og þétt eftir því sem nýbyggingu og endurbyggingu vega miðar fram. Væntanlega mun þannig takast að ná umtalsverðum árangri í fækkun brúa með samþykkt nýrrar samgönguáætlunar 2015–2026. Í stefnumótun þeirrar áætlunar er umferðaröryggi fremst á blaði og áhersla lögð á úrbætur við slysastaði, þar á meðal einbreiðar brýr,“ segir í svari ráðherra.

Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina