Eldsneytiskostnaður bifreiða er með stærri kostnaðarliðum í bókhaldi flestra heimila landsins, enda hefur verð á eldsneyti hækkað verulega á undanförnum árum.
Hægt er að draga umtalsvert úr kostnaðinum með einföldum leiðum og ljóst er að til mikils getur verið að vinna. Marteinn Guðmundsson, ökukennari í Reykjavík, hefur um árabil rekið vistakstur.is. Auk hefðbundinnar ökukennslu er í boði námskeið í vistakstri fyrir fyrirtæki og einstaklinga og segir Marteinn að spara megi töluvert eldsneyti með breyttu aksturslagi. Hann segir að fyrsta boðorðið sé að lesa í umferðina.
„Já, þetta er stórt og mikilvægt atriði, sérstaklega hérna í þéttbýlinu. Með jöfnum ökuhraða skapast aukið svigrúm til að lesa betur í umferðina og þar með fækka óþarfa stoppum og spara þar með eldsneyti. Það segir sig til dæmis sjálft að eyðslan eykst þegar bíllinn er tekinn oft úr kyrrstöðu. Þess vegna þarf ökumaðurinn alltaf að horfa sem lengst fram á veginn og reyna að sjá fyrir stöðu umferðarljósa og hugsanlegar hindranir eða hættur. Með þessu móti sparast ekki bara eldsneyti, aksturinn verður um leið öruggari og þægilegri. Slysahætta minnkar þar sem ökumaðurinn heldur betra bili milli bíla, gætir fyrr að umferð á gatnamótum og ekur frekar á réttum hraða. Með þessu aksturslagi sparast eldsneyti og öryggi eykst, til dæmis fækkar aftanákeyrslum sem eru ein algengustu umferðaróhöppin í dag. Slíkt aksturslag fer auk þess betur með bílinn, dregur úr óþarfa mengun og heimsóknirnar á verkstæði verða færri.“
Marteinn segir að hjólbarðar skipti miklu máli, þegar eldsneytiseyðsla er annars vegar. Réttur loftþrýstingur sé afar mikilvægur.
„Ef loftþrýstingur er of lítill eykst eyðslan, þar sem núningsmótstaðan eykst. Þess vegna borgar sig að athuga þrýstinginn reglulega, enda verða aksturseiginleikar bílsins betri með réttum og jöfnum þrýstingi. Það er því nauðsynlegt að huga vel að þessu, ásamt því að almennt viðhald og eftirlit hefur margs konar áhrif á aksturshagkvæmni bílsins.“
Á námskeiðunum um vistakstur leggur Marteinn áherslu á að hugsað sé fram í tímann, akstursleiðir séu skipulagðar sem best.
„Akstursleiðir skipta miklu máli varðandi hagkvæman akstur. Ákjósanlegasta ökuleiðin er sú sem sjaldnast þarf að stöðva bílinn og hægt er að aka sem lengst á jöfnum hraða. Stundum er stysta leiðin ekki endilega hagkvæmust, ef til dæmis mörg umferðarljós eru á leiðinni og líka getur þurft að velja mismunandi leiðir eftir tíma sólarhringsins. Þumalputtareglan er sem sagt sú að hugsa alltaf fram í tímann, þannig að ferðin verði sem hagkvæmust, þægilegust og öruggust.“
„Já já, vistakstur er umhverfisbót og ávinningurinn sést fljótt. Og ekki skemmir fyrir að peningalegur sparnaður er í flestum tilvikum verulegur. Þegar í ljós kemur að eldsneytiskostnaðurinn er ekki eins þungur í bókhaldinu, er venjulega stutt í brosið hjá fólki, það er því um að gera að taka fyrstu skrefin í þessum efnum. Vistakstur er ekki bara skynsamlegur. Hann er skemmtilegur, öruggari, umhverfisvænni og hagkvæmur,“ segir Marteinn Guðmundsson ökukennari.
karlesp@simnet.is