Lexus og Mazda bestu bílsmiðirnir

Tesla Model S er besti bíll Bandaríkjanna.
Tesla Model S er besti bíll Bandaríkjanna.

Hið áhrifaríka bandaríska neytendablað Consumer Reports hefur þriðja árið í röð útnefnt lúxusbíladeild Toyota - Lexus - besta bílsmið heims. Alls voru fjögur japönsk bílavörumerki í fimm efstu sætunum hjá tímaritinu. 

Í öðru sæti varð Mazda og hreppir þar með fyrsta sæti fyrir fjöldaframleidda bíla. Mat Consumer Reports þykir ætíð geta haft og hafa áhrif á bílasölu í Bandaríkjunum.

Toyota varð svo í þriðja sæti og inn á milli Japananna komst Volkswagen upp í fjórða sætið. Í fimmta sæti varð svo Subaru, sem er í eigu japanska iðnaðarrisans Fuji Heavy Industries, í   

Athygli vekur síðan hrun Mercedes-Benz í mati blaðsins en það merki fellur úr 10. sæti í fyrra í það 21. í ár. Consumer Reports segir ástæðuna fyrir því vera nokkur óáreiðanleg bílamódel, þar á meðal CLA stallbakurinn.

Besta einstaka bílamódelið í úttekt tímaritsins varð rafbíllinn Tesla Model S. Audi A6 var þriðja árið í röð valinn besti lúxusbíllinn. Í jeppaflokki varð Subaru Forester meðal minni jeppa og Toyota Highlander í flokki meðalstórra jeppa.

Þrír bandarískir bílar komust í hóp 10 bestu í hinni árlegu úttekt Consumer Reports. Svo margir hafa þeir ekki verið í þeim hópi frá 1998. Fyrir utan Tesla Model S voru það General Motors bílarnir Buick Regal og Chevrolet Impala. Sá fyrrnefndi varð efstur í flokki sportlegra stallbaka en þar varð BMW 328i efstur í fyrra. Impala varð svo efst hjá blaðinu í flokki lúxusstallbaka.

„Um árabil smíðuðu framleiðendur innanlands verðlægri og gæðaminni bíla sem svar við innflutningi. Það heyrir nú fortíðinni til og geta innlendir bílsmiðir keppt jafnfætis við bestu innfluttu bílana,“ segir Jake Fisher, yfirmaður bílprófanadeildar Consumer Reports.

Við valið studdist tímaritið meðal annars við mat og einkunnagjöf 1,1 milljónar lesenda sinna. Sömuleiðis var stuðst við skýrslur rannsóknarstofnana á sviði umferðaröryggis og loks bílprófanir blaðamanna tímaritsins sjálfs.

Fegurð, gæði, lúxus og hátækni einkenna Mazda6.
Fegurð, gæði, lúxus og hátækni einkenna Mazda6.
mbl.is

Bloggað um fréttina