Áhugamenn um ál við bílsmíði hafa ástæðu til að fagna því að 80% af yfirbyggingu og undirvagni nýs Jaguars XF eru úr þeim málmi.
XF-bíllinn verður frumsýndur við athöfn í Englandi í dag, 24. mars, og verður það Jaguar-bíll í léttari kantinum vegna lágmarksnotkunar á járni og stáli við smíði hans. Með notkun áls mun hann verða um 100 kílóum léttari en fyrri kynslóð XF.
XF-bíllinn er stóri bróðir Jaguar XE sem einnig verður byggður að mestu úr áli, en báðir verða smíðaðir upp af sama undirvagni. Munu útlínur þeirra verða svipaðar en stærðarmunur verður samt nokkur.
Í aðdraganda frumsýningarinnar hefur bílsmiðurinn breski birt mynd sem tekin er ofan á XF-bílinn og af mælaborði hans.
Núverandi kynslóð XF kom á götuna 2008 og langbaksútgáfa bættist við 2012 sem nefnd hefur verið „Sportbrake“. Sá bíll verður áfram smíðaður í óbreyttri mynd um ótilgreinda framtíð.
agas@mbl.is