Sala lúxusbíla til einstaklinga frá áramótum til pálmasunnudags var 28,3% meiri en á sama tímabili í fyrra. Þá hefur orðið sprenging í sölu nýrra bíla til bílaleigna.
Einstaklingar keyptu 118 lúxusbíla á tímabilinu en 92 í fyrra, að því er greining Brimborgar á tölum Samgöngustofu leiðir í ljós, en um hana er fjallað í Morgunblaðinu í dag.
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, áætlar að lúxusbíll kosti að meðaltali 8,5 milljónir. Samkvæmt því seldust slíkir bílar fyrir rúman milljarð á tímabilinu en 782 milljónir í fyrra. Til marks um söluaukninguna seldust aðeins 22 lúxusbílar á þessu tímabili 2010 og 80 árið 2013. Hefur salan því aukist um 48% frá 2013. Til lúxusbíla heyra tegundirnar Volvo, Benz, Land Rover, Audi, BMW, Porsche, Lexus og Tesla.