Áður en áratugurinn er úti mun pallbíll frá Mercedes-Benz sjá dagsins ljós. Slíkan bíl hefur þýski eðalbílaframleiðandinn ekki sent frá sér áður. Sótt verður með hann inn á markaði í Suður-Ameríku, Suður-Afríku, Ástralíu og Evrópu.
Pallbílar hafa notið vinsælda um veröld víða sakir fjölhæfni, alhliða notkunargildis og burðargetu upp á um eitt tonn. Því er um söluvænlega vöru að ræða í augum Mercedes.
„Mercedes-Benz-pallbíllinn mun leggja sitt af mörkum til að vaxtarmarkmið okkar á heimsvísu náist,“ segir stjórnarformaður Daimler og forstjóri bílaframleiðslu Mercedes-Benz, Dieter Zetsche, um áformin.
Hann segir að lögð verði áhersla á smíði bíls sem endurspegli öll gildi og gæði Mercedes hvað varðar öryggi, þægindi, ágæti aflrásarinnar og virði.
Markaður fyrir meðalstóra pallbíla er sem stendur að ganga í gegnum breytingar um heim allan. Bílar sem þessir eru í auknum mæli brúkaður sem einkabílar og bæði einstaklingar og fyrirtæki gera auknar kröfur um búnað, þægindi og meðfærileika sem um fólksbíla væri að ræða.
Mercedes-Benz er fyrsti lúxusbílaframleiðandinn sem bregst við þessari þróun með því að framleiða eigin pallbíl.
agas@mbl.is