Ekki eru allir ósáttir við þá breytingu á umferðarlögum er lýtur að akstri léttra bifhjóla í flokki I. Einn þeirra er Ragnar Ingi Stefánsson, framkvæmdarstjóri mótorhjólaverslunarinnar Nítró sem meðal annars selur bensínknúnar vespur sem ná 25 km hraða.
Ragnar spyr af hverju fólk sé að missa sig yfir því að vilja setja strangari reglur um þessi tæki. „Hafa þessi tæki valdið vandræðum? Nei,“ segir Ragnar í viðtali við Morgunblaðið. „Hafa þessi tæki valdið slysum? Ekki teljanlega og engum alvarlegum. Eru þau fyrir á göngustígum? Nei, það sjá allir að það er sjaldnast nokkur umferð á göngustígum“ bætir Ragnar við.
Betri bremsur og ljósabúnaður
„Við skulum hafa það alveg á hreinu að reiðhjól fara mun hraðar með hærri þyngdarpunkt, þessi tæki eru takmörkuð við 25 km hraða á klukkustund sem er hlaupahraði,“ bendir Ragnar á.
„Ungmenni eru líka tvö og þrjú á reiðhjólum eins og æsifréttirnar sem við höfum séð af fíflagangi unglinga á 25 km vespum, en þessi skrílslæti á reiðhjólum þykja ekki fréttir lengur. Af einhverjum ástæðum eru þetta forsíðufréttir með þessar vespur sem þó eru með mun lægri þyngdarpunkt, alvöru ljós og alvöru bremsur.“
Ragnar vill meina að vespur sem ná 25 km hraða hafi marga kosti og nefnir meðal annars meira sjálfstæði unglinga sem þessi tæki nota og minna skutl foreldra og þar af leiðandi minni umferð á götum og minni mengun. „Við skulum ekki gera vandamál úr einhverju sem er ekki vandamál, það er nóg af alvöru vandamálum í þjóðfélaginu,“ sagði Ragnar að lokum.
njall@mbl.is