Ungmennum sem taka almenn ökuréttindi strax við 17 ára aldurinn fer fækkandi, en um 70 prósent af árgangi taka nú bílpróf samanborið við 85 prósent um aldamót. Mbl.is fór á stúfana og talaði við bílprófslausa nemendur Menntaskólans í Reykjavík um það hvers vegna þeir tóku prófið ekki á réttum tíma.
Ástæðurnar voru misjafnar, en þó virtist leti og gleymska spila inn í hjá mörgum. Þá nefndu nokkrir að þörfin fyrir bílpróf væri ekki mikil þar sem vinir og ættingjar væru duglegir að skutla auk þess sem almenningssamgöngur væru ágætis ferðamáti.
Kostnaður við bílprófið sjálft virtist ekki hafa mikil áhrif á ákvörðun nemenda sem mbl.is ræddi við, en gera má ráð fyrir að hann sé um 220 þúsund krónur að lágmarki. Þar af er kostnaður við bóklega hlutann, ökuskóla eitt og tvö, sitt hvorum megin við 30 þúsund kr. og ökuskóli þrjú kostar 36 þúsund krónur.
Ökukennarar rukka að jafnaði á bilinu 8 til 11 þúsund fyrir hvern ökutíma, en algengasta tímaverðið er um 9 þúsund krónur. Kostnaður við lágmarksfjölda ökutíma er því um 135 þúsund krónur en algengast er að nemendur fari upp í 16 til 17 ökutíma, eða einum til tveimur ökutímum yfir lögbundinn lágmarksfjölda. Ökuprófin tvö kosta 12.100 krónur samtals; verklega prófið 8.900 kr. og bóklega prófið 3.200. Þá bætist loks kostnaður upp á 3.300 krónur við hjá sýslumanni fyrir fyrsta ökuskírteinið, til bráðabirgða.
Hlutdeild vistvænna samgangna hefur aukist töluvert í Reykjavík undanfarin ár og æ fleiri bílstjórar og farþegar velja fremur ganga eða hjóla á ferðum sínum um borgina. Þetta kemur fram í ferðavenjukönnun sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin létu gera sl. haust.
Arnór Bragi Elvarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir breytinguna ekki óeðlilega þar sem ungt fólk átti sig á því að aðrir valkostir standi til boða en einkabifreiðin. „Sú vitundarvakning hefur vissulega átt sér stað, enda löngu orðið ljóst að það er ekki sjálfsagt að ungt fólk eigi bíl, hvort sem ástæðan sé að einkabíllinn höfði ekki til ungs fólks eða það að nemendur hafi ekki nóg á milli handanna til þess að reka bílinn,“ segir hann.
Arnór bendir á vefsíðu FÍB þar sem fram kemur að kostnaður við ódýrasta bílinn sé rúmlega 1,2 milljónir á ári, en á sama tíma geri framfærslugrunnur LÍN aðeins ráð fyrir 79 þúsund krónum í ferðakostnað á ári.
Þá bendir hann á að með átökum eins og Hjólað í Háskólann sé vel hægt að sjá mikinn áhuga nemenda á því að leggja einkabílnum og hjóla, en um 3.700 nemendur HÍ skráðu sig til leiks í átakinu sem stóð frá 23.-26. mars sl.