Fleiri bifhjólamenn lenda í slysum

Flest slys verða á svokölluðum kappaksturshjólum.
Flest slys verða á svokölluðum kappaksturshjólum. mbl.is/Frikki

„Góðu fréttirnar eru þær að enginn bifhjólamaður lést á síðasta ári, en slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að samanlagður fjöldi alvarlega slasaðra og látinna hækkaði,“ segir Einar Magnús Magnússon, starfsmaður á samhæfingasviði Samgöngustofu og bifhjólamaður. 

Slysaskýrsla Samgöngustofu fyrir árið 2014 þar sem þung bifhjól koma við sögu var kynnt á árlegum vorfundi um málefni og öryggi bifhjólamanna í dag. Kemur þar meðal annars fram að fimmtíu og fjórir bifhjólamenn slösuðust á síðasta ári, þar af 28 alvarlega. Það er tæplega tvöfalt meira en tveimur árum áður þegar 17 slösuðust alvarlega.

Misskilningur að bifhjólamenn séu óalandi

„Þetta eru ákveðin vonbrigði en á sama tíma hefur fjöldi skráðra bifhjóla aukist mikið og heildarfjöldinn minnkar í samanburði við það,“ segir Einar Magnús, en fjöldi þungra bifhjóla margfaldaðist um 2,4 á meðan heildarfjöldi slasaðra og látinna margfaldaðist um 1,5.

Svokölluð kappaksturshjól (e. racer) eiga hlutdeild í flestum alvarlegum bifhjólaslysum, eða um 40% þeirra. Þar á eftir fylgja þung götuhjól. Þá er algengasta tegund slysa fall af bifhjóli en orsök þess getur verið hraðakstur, ölvun, aðskotahlutur á vegi, slæm færð o.s.frv. að sögn Einars Magnúsar. Þá er hliðarákeyrsla önnur algengasta tegundin.

„Það er þó mikill misskilningur að bifhjólamenn séu óalandi hópur og ótillitssamur. Það eru allar tegundir af fólki í þessum hópi og það má hrósa stærstum hluta þeirra fyrir það hversu vandvirkir þeir eru og tillitssamir,“ seig Einar Magnús.

Mun meiri líkur á alvarleika slyss á bifhjóli

Einar Magnús segir alvarlegar afleiðingar slysa margfalt meiri hjá bifhjólamönnum en ökumönnum bíla. „Það er mjög sláandi. Ef fólk er í bíl og lendir í slysi eru tíu prósent líkur á að afleiðingarnar verði alvarlegar eða banaslys. Ef fólk er á léttu bifhjóli eða skellinöðru þá hækka líkurnar upp í 17%. Á þungu bifhjóli eru hins vegar 41% líkur á því að afleiðingarnar verði alvarlegar eða banaslys,“ segir Einar Magnús. „Þetta undirstrikar gríðarlega mikilvægi þess að menn fari varlega.“

Hann segir mikilvægt að ákveðin jafningjafræðsla eigi sér stað hjá bifhjólamönnum, sem geti frætt hvorn annan, sýnt ábyrgð og sett sig í spor vegfarenda. „Þetta undirstrikar gríðarlega vel mikilvægi þess að bifhjólamenn efli enn frekar ábyrgð sína,“ segir hann og bætir við að fáir vegfarendahópar beri jafn mikla ábyrgð á sjálfum sér og bifhjólamenn. Hann segir aðra ökumenn þó að sjálfsögðu verða að bera virðingu fyrir og taka tillit til bifhjólamanna.

Sérstaklega varasamt vegna ástands vega

Í skýrslunni sem kynnt var kemur fram að árið 2012 var fjöldi alvarlega slasaðra 17. Alvarlega slösuðum og látnum fjölgaði um 12% milli áranna 2013 og 2014. Samanlagður fjöldi alvarlega slasaðra og látinna árið 2014 var tæp 8% yfir 10 ára meðaltali.

„Ef einhvern tímann er ástæða til að hafa gætur á sér, vera vel upplagður og láta ekkert trufla sig, vera allsgáður, vakandi og pínu hræddur þá er það á mótorhjólum. Þá ætti allt að fara vel í flestum tilfellum,“ segir Einar Magnús. Þá segir hann sérstaka ástæðu til að fara varlega núna því ástand vega sé mjög slæmt.

Tíu þúsund slasast á síðustu 10 árum

Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að af þeim 10.408 sem slösuðust í bifreið á árunum 2005 til 2014 voru 1.060 eða 10% sem slösuðust alvarlega eða létust. Af þeim 94 sem slösuðust á léttu bifhjóli á sama tímabili voru 16 eða 17% sem slösuðust alvarlega eða létust. Af þeim 638 sem slösuðust á þungu bifhjóli voru 261 eða 41% sem slösuðust alvarlega eða létust.

Slysaskýrsla Samgöngustofu byggir á lögregluskýrslum úr gagnagrunni Ríkislögreglustjóra ásamt því að frá árinu 2009 hefur verið stuðst við gögn frá Aðstoð og öryggi. Í einhverjum tilfellum rata umferðaróhöpp ekki í gagnagrunninn heldur beint á borð tryggingafélaga en það á yfirleitt við í tilfellum þar sem ekki er um slys á fólki að ræða eða þau eru smávægileg.

Einar Magnús Magnússon.
Einar Magnús Magnússon. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
Lögreglumenn á bifhjólum.
Lögreglumenn á bifhjólum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina