Kínverjar hafa löngum ekki hikað við að smíða eftirlíkingar af vestrænum varningi ýmiss konar, þar á meðal bílum. Nokkrar slíkar eftirlíkingar gefur að líta á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Sjanghæ í Kína.
Meðal þeirra er bíll að nafni Jinma JMW2200 og segja fróðir þar vera um blákalda eftirlíkingu að ræða af BMW i3. Það er fyrst og fremst í útliti sem bílunum svipar mjög saman því allt annað er uppi á teningnum þegar að innréttingunni kemur. Þar er kínverski bíllinn fremur forn að sjá í skipulagi og efnisvali.
Skyldleiki er og með nöfnum bílanna. Á kínversku táknar „gullinn hestur“ og BMW „fjársjóðshross“. Má því kannski segja að Kínverjarnir séu ekki ýkja frumlegir í nafngiftinni.
Jinma JMW2200 bílinn framleiðir kínverskt fyrirtæki að nafni Qingzhou Da Jinma Motorcycle Corporation sem hefur aðsetur í borginni Qingzhou. Hóf það starfsemi sem reiðhjólasmiður en meginframleiðslan í dag er rafbílar.
Ekki stenst kínverska eftirlíkingin BNW i3 snúning þegar út í umferðina er komið. Í honum er aðeins lítill 3ja kílóvatta rafmótor sem takmarkar hámarkshraða bílsins við 40 km/klst. Drægið er gefið upp sem 120 km.
agas@mbl.is