Smábílar hættulegri en stórir

Sportbílar eru léttir og hraðskreiðir. Þeim er hlutfallslega sjaldan ekið …
Sportbílar eru léttir og hraðskreiðir. Þeim er hlutfallslega sjaldan ekið vitlaust. Hættan á limlestun eða dauða í þeim er minni en í öðrum bílum.

Vera má að öryggistilfinning fólks sé mikil í bílum sem komið hafa vel út úr árekstrarprófi Euro NCAP-stofnunarinnar.

Tölfræði úr nýrri rannsókn bendir hins vegar til, að stærð bíla og gerð ráði meiru um hættuna á því að láta lífið eða slasast lífshættulega í umferðinni klessi menn bíl sinn. Í Euro NCAP er stjörnum og einkunnum útdeilt í samanburði við bíla í sama stærðarflokki. Í nýrri rannsókn á vegum þýsku samgöngustofunnar (SBBAS) var hins vegar reynt að setja mælistiku á hættuna á banaslysi annars vegar og hins vegar alvarlegu líkamstjóni óháð stærðarflokkum bíla.

Í ljós kom að 97 af hverjum 10.000 örbílum lenda í umferðarslysi sem hafa meiðsl í för með sér. Og að fyrir hvert þúsund sem slasast deyja 99 eða verða fyrir alvarlegum meiðslum. Í sambærilegum útreikningum fyrir lúxusbíla – þar sem manntjónshættan er minnst – verða meiðsl í 91 bíl af hverjum 10.000. Þar deyja eða slasast lífshættulega 63 manns miðað við hvert þúsund slysa þar sem lúxusbílar koma við sögu. Með öðrum orðum er 50% meiri hætta á dauðsfalli eða alvarlegu líkamstjóni hlekkist mönnum á við akstur á örbíl en lúxusbíl.

Litlu öruggari eru bílar í næsta flokki yfir örbílunum, smábílaflokknum. Af hverjum 10.000 lenda 97 í alvarlegum slysum og í 98 slysum af 1.000 verður manntjón.

Margir halda ef til vill að hraðskreiðir sportbílar, tæki sem menn aka fyrst og fremst sér til ánægju en síður til athafna eins og að skreppa út í búð, komi títt við sögu umferðaróhappa. Þessu er öðruvísi farið því aðeins 51 sportbíll af hverjum 10.000 verður fyrir slysi. Eða hlutfallslega helmingi færri en örbílar og smábílar. Aðeins húsbílar koma sjaldnar við sögu slysa þar sem meiðsl verða á fólki.

Í hverjum eitt þúsund slysum sportbíla átti manntjón eða alvarleg meiðsl sér stað í 73. Sem aftur er mun lægra hlutfall en hjá örbílum, smábílum, vörubílum, fjölnota bílum og bílum af millistærð.

Hér er um niðurstöður hreinnar tölfræðirannsóknar að ræða þar sem ekkert var reynt að draga fram skýringar á mismuninum á öryggi bíla eftir stærð.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina