„Ökumaðurinn brást illa við, hann taldi för í umhverfinu réttlæta sinn utanvegaakstur. Taldi af og frá að hann væri að vinna náttúruspjöll. Vefengdi sömuleiðis að ég gæti sem landeigandi nokkuð sagt eða gert. En brotið er skýrt og verknaðurinn verður kærður.“
Þetta segir Benedikt Bragason á Ytri-Sólheimum í Mýrdal. Þau Andrína Guðrún Erlingsdóttir kona hans, sem reka ferðaþjónustuna Arcanum, eiga Sólheimajörðina ásamt fleirum, þar með talinn Sólheimasand. Talsverð umferð er um sandinn, þar sem fólk fer til að skoða flak DC-3 flugvélar sem þar nauðlenti fyrir áratugum.
Að flakinu er vel markaður fjögurra kílómetra slóði og þar sem ekið er inn á hann af þjóðveginum er nýlegt skilti þar sem stendur að utanvegaakstur sé bannaður og verði kærður til lögreglu. Allur gangur hefur þó verið á því hve hátíðlega ferðamenn taka þau skilaboð, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.