Nýr borgarbíll á prjónum Audi

Audi-borgarbíllinn verður meðal annars fáanlegur með niðurfellanlegu þaki. Borgarbílar með …
Audi-borgarbíllinn verður meðal annars fáanlegur með niðurfellanlegu þaki. Borgarbílar með sérstöku lagi sækja sífellt í sig veðrið.

Á prjónunum hjá Audi er meðal annars að finna þessa dagana hugmynd að borgarbíl framtíðarinnar. Honum er stefnt meðal annars gegn Fiat 500-bílnum.

Audi hefur með sanni framleitt borgarbíl með A1-bílnum en hann hefur einungis verið settur á markað í Evrópu og til að mynda ekki verið seldur til Bandaríkjanna.

Nýi bíllinn er enn á hugmyndastigi en verður smíðaður í margs konar útgáfum til að höfða til sem stærsts hóps neytenda. Að sögn tímaritsins Automobile Magazine er ætlunin að frumsýna bílinn á stærstu bílasýningu heims, í París, á næsta ári en þá verður hann samt enn á hugmyndastiginu.

Áætlanir fyrir bíl þennan miðast við að hann verði kominn í raðsmíði einhvern tíma fyrir 2020. Hann verður byggður bæði sem tveggja dyra bíll og fjögurra dyra.

Hægt verður að velja um nokkrar þriggja strokka vélastærðir, þar á meðal 110 hestafla bensínvél og 100 hesta dísilvél. Þá er í myndinni að búa bílinn út sem rafbíl, annaðhvort 80 eða 120 hestafla með áætluðu 200 km drægi á fullri rafhleðslu.

Enn fremur eru uppi áætlanir að bjóða bílinn með tveggja strokka og 1,2 lítra Ducati-vél sem skila mun hvorki meira né minna en 200 hestöflum. Yrði það í fyrsta sinn sem Ducati-vélar rata í Audi-bíl frá því bílsmiðurinn þýski keypti ítalska mótorhjólaframleiðandann fyrir þremur árum.

Bíllinn verður byggður upp af MQB-undirvagni Volkswagen-samsteypunnar og verður staðalútgáfan væntanlega framhjóladrifin en fjögurra hjóla Quattro-drif sem valkostur. Hann verður með sæti fyrir aðeins tvo og verður meðal annars fáanlegur með niðurfellanlegu þaki.

Þessi bíll er sagður hafa verið gæluverkefni Ferdinand Piech, sem nýlega var settur af sem stjórnarformaður VW-samsteypunnar. Gæti því verið að áætlanir um bílinn eigi eftir að breytast, sérstaklega hvað aflmestu útgáfu hans varðar.

agas@mbl.is

 

Audi-borgarbíllinn verður með sérstöku lagi.
Audi-borgarbíllinn verður með sérstöku lagi.
Framtíðar borgarbíll Audi.
Framtíðar borgarbíll Audi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina