Brynjólfur Brynjólfsson verkstjóri hefur vakið athygli á götum borgarinnar, en hann ekur um á uppgerðum GAZ 69 rússajeppa. Brynjólfur setti bílinn á númer í lok maí, en hann var tvö ár að gera bílinn upp.
„Ég átti svona bíl í gamla daga. Húsið er íslenskt, vélin er úr Volvo því það voru svo lélegar vélar í þessum bílum og mjög eyðslufrekar,“ segir Brynjólfur í umfjöllun um þetta viðfangsefni hans í Morgunblaðinu í dag. Hann hefur ekki mælt hve miklu bíllinn eyðir á hundraðinu.
„Þannig var að bróðir minn eignaðist þennan bíl, hann sagði við mig að hann myndi aldrei gera hann upp og vildi gefa mér hann. Ég skoðaði bílinn og sá fljótt að hann var mjög ryðgaður þannig að ég svaraði að ég vissi ekki hvort ég myndi hreinlega nenna því. Svo dó bróðir minn skömmu síðar og þá fannst mér það meiri skylda.“