Afrískir bílar sem koma á óvart

Jeppinn frá Mobius í Kenya er fallegur í fábreytileika sínum. …
Jeppinn frá Mobius í Kenya er fallegur í fábreytileika sínum. Hann er svo einfaldur að ekki þarf fullkomin verkstæði til að laga það sem bilar.

Þrátt fyrir að vera heimkynni 1,1 milljarðs manna hefur Afríka ekki enn náð að komast almennilega á kortið hjá bílaáhugamönnum.

Rætur bílahönnunar og -smíði liggja djúpt í Evrópu og Bandaríkjunum. Asíulönd á borð við Japan, síðar S-Kóreu og núna allrasíðast Kína og Indland hafa gert sig gildandi með sínum eigin bílategundum þar sem hugvit, hönnun og smíði heimamanna fær að njóta sín. Afríka hefur, aftur á móti, rekið lestina.

Þar með er ekki sagt að engir bílar séu framleiddir í álfunni, en þeir eru þá smíðaðir fyrir erlend fyrirtæki. Má sem dæmi nefna að Renault rekur stóra verksmiðju í Tangiers í Marokkó. GM og Honda eru með verksmiðjur í Kenía, og margir stærstu risarnir starfrækja bílaverksmiðjur í Egyptalandi.

En nú eru blikur á lofti og hreinræktaðir afrískir framleiðendur farnir að skjóta upp kollinum. Sumir þeirra virðast alveg hafa burði til að verða að einhverju stærra, og hver veit nema tilraunir metnaðarfullra bíladellu- og athafnamanna í Úganda eða Nígeríu í dag verði á endanum að alþjóðlegum merkjum sem sjást á götum Reykjavíkur.

Notagildið í fyrirrúmi

Fyrst má nefna Mobius Motors í Kenya sem gerir mjög einfalda jeppa, smíðaða með afrískar aðstæður í huga. Grind bílsins er úr stálrörum og ökutækinu púslað saman úr íhlutum úr ýmsum áttum. Um 35% af kostnaðinum við smíði hvers bíls kemur til innanlands og stefnt að því að þetta hlutfall hækki upp í 40%.

Var fyrirtækið sett á laggirnar árið 2009 af bráðungum Evrópubúa, Joel Jackson, sem hafði búið á svæðinu um skeið og komið auga á alvarlegan samgönguvanda álfunnar.

Mobius-bílarnir eru, eðli málsins samkvæmt, klossaðir og lausir við hvers kyns prjál. Þeir þjóna sínu hlutverki vel, þykja þola ágætlega erfiða vegina og standa vonir til að Mobius hafi sett mark sitt á alla álfuna þegar upp er staðið.

Tvinnbíll frá Úganda

Makere University í Úganda stendur að baki bílamerkinu Kiira Motors Corporation. Er um að ræða samstarfsverkefni Makere og MIT um smíði tvinnbíls sem hentar aðstæðum í landinu, ræður við slæma vegi og er verðlagður í samræmi við kaupgetu heimamanna.

Aðstandendur Kiira þurfa að stytta sér leiðir hér og þar, og fá lánaða parta frá Kína. Á fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn að rúlla út af verksmiðjugólfinu árið 2018.

Eins og stendur er heimasíða Kiira Motors sama sem tóm. Af ýmsum heimildum má ráða að fyrsti bíllinn verði þriggja dyra og setur þríhyrnt grill sterkan svip á framhlutann.

Asískur innblástur

Innoson í Nígeríu gerir bíla af ýmsum gerðum, og alla af stóru sortinni. Spannar úrvalið allt frá pallbílum yfir í smárútur, strætisvagna og sorphirðubíla. Framleiðslan fer fram í borginni Nnewi sem stundum er kölluð „Japan Afríku“ vegna blómlegs iðnaðar.

Heimildir um Innoson eru af skornum skammti, ekki mikið gagn í vefsíðu fyrirtækisins og nær öruggt að bílarnir eru smíðaðir úr íhlutum frá öðrum framleiðendum. Hönnun bílanna sækir síðan greinilega innblástur til asískra framleiðenda.

Með Jesú í aftursætinu

Kantanka frá Ghana verðskuldar líka að vera á listanum. Reyndar bendir margt til að maðkur sé í mysunni þar á bæ. Kantanka-bílamerkið er nefnilega hluti af stærra viðskiptaveldi predikarans Safo Kantanka sem virðist, við fyrstu sýn, vera í meira

lagi uppátækjasamur. Er óljóst að hve miklu leyti bílarnir eru smíðaðir í Ghana, en eitt jeppamódelið hefur þó mjög áberandi og vígalegt grill.

Föngulegar línur

Bílarnir sem taldir hafa verið upp hér að framan framkalla sennilega ekki mikinn fiðring hjá íslenskum lesendum, enda hannaðir með notagildið í huga frekar en að prýða plaggöt á svefnherbergisveggjum ungra bíladellustráka og -stelpna.

Perana frá Suður-Afríku er aftur á móti bíll sem fær hjartað til að slá örar.

Perana-merkið á sér langa sögu sem nær allt aftur til 7. áratugarins og var skeytt aftan við nafnið á tjúnuðum i Ford-bílum frá Basil Green Motors í Jóhannesarborg.

Bílaframleiðandinn Perana varð til árið 2007 og árið 2009 að Z-One sportbíllinn var kynntur á bílasýningunni í Genf.

Eitthvað virðist reksturinn ekki alveg vera í lagi hjá fyrirtækinu, því vefsíðan liggur niðri og lítið hefur farið fyrir fréttum af Perana undanfarin ár. Er þó ekki hægt að sjá að fyrirtækið hafi farið á hliðina.

Þrátt fyrir að vera sex ára gamall bíll er Perana Z-One enn þann dag í dag framúrskarandi fallegt ökutæki. Að utan mætti segja að bíllinn væri eins og ef að Dodge Viper og Ferrari Berlinetta eignuðust afkvæmi.

Bíllinn er enda hannaður af Norihiko Harada, yfirhönnuði bílaframleiðandans Zagato á Ítalíu. Undir húddinu er V8 Corvettu-vél sem skilar 440 hestöflum. Þótti Perana Z-One mjög ódýr á sínum tíma, og var verðmiðinn um 70.000 dalir árið 2009. Gjafverð fyrir svona snotran og öflugan bíl.

Er ekki annað hægt að sjá en að aðeins sjö Z-One hafi verið framleiddir. Stóð þó til að bílarnir yrðu samtals 999 talsins. ai@mbl.is

Innoson í Nígeríu er greinilega ekki að reyna að sýna …
Innoson í Nígeríu er greinilega ekki að reyna að sýna mikinn frumleika í útlitshönnuninni. Þessi pallbíll hefur kunnuglegt útlit. Myndir er af auglýsingu Innoson, og greinilegt að þeir ætlast til mikils af bílnum.
Jepparnir frá Kantanka í Ghana. Takið eftir vígalegu grillinu.
Jepparnir frá Kantanka í Ghana. Takið eftir vígalegu grillinu.
Sennilega þykir ekki öllum Kiira fólksbíllinn sá fallegasti en hann …
Sennilega þykir ekki öllum Kiira fólksbíllinn sá fallegasti en hann á að vera tvinnbíll á verði sem hentar neytendum í Úganda.
Z-One frá Suður-Afríku hefur elst vel. Ítölsk hönnun og afrísk …
Z-One frá Suður-Afríku hefur elst vel. Ítölsk hönnun og afrísk smíði. Ljósmynd / Wikipedia - David Villareal Fernández (CC)
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina