Opel-auglýsing bönnuð

Opnumyndin í Opel-bæklingnum sem fer fyrir brjóstið á Svíum.
Opnumyndin í Opel-bæklingnum sem fer fyrir brjóstið á Svíum.

Særandi og endurspeglar kynjamisrétti, segir umboðsmaður auglýsinga í Svíþjóð um nýjan auglýsingabækling fyrir bílinn Opel Corsa. Hann hefur eftirlit með auglýsingum þar í landi og hefur bæklingurinn ekki hlotið  náð fyrir augum hans.

Í dönskum bílamiðlum segir, að bæklingurinn hafi endað á fordómabáli sænska umboðsmaðsins því Svíar séu svo uppteknir af pólitískum rétttrúnaði. Var það sérstaklega ein mynd í bæklingnum og texti með henni sem olli uppnámi og nú hefur Opelumboðið í Svíþjóð lofað betrumbót og tekið myndina út úr nýjum bæklingi sem prentaður verður í stað hins fordæmda.

„Ást við fyrstu sýn“ var yfirskrift myndarinnar sem fyllti næstum fyrstu opnu bæklingsins og var af léttklæddri ungri konu í óvenjulegum stellingum í framsæti Opel Corsa. Þannig situr fólk ekki venjulega undir stýri því önnur löppin liggur upp á mælaborðið en hin er uppi í sæti bogin um hné. Væntanlega er meiningin með henni að sýna mikið dálæti konunnar á bílnum.  

Undan þessari mynd í bæklingnum var kvartað og sagt að í henni fælust engar tæknilegar upplýsingar um bílinn og smíði hans. Það tók auglýsingaumboðsmaðurinn sænski til greina og sagði auglýsinguna ekki bara særandi fyrir konur heldur og fælist í henni kynjamisrétti.

Sænskir fjölmiðlar halda því fram að Opelumboð í öðrum landi hafi fengið athugasemdir frá neytendum vegna bæklingsins. Það á ekki við um Danmörku og segir kynningarstjóri Opel þar í landi að viðbrögð Svía við auglýsingunni endurspegli menningarlegan mun á Svíum og Dönum.

Það er annars áhugavert við þetta, að markaðsstjóri Opel í Evrópu er kona. Hin 46 ára gamla Tina Müller hefur lokaorðið um allar auglýsingar og bæklinga þýska bílsmiðsins. Í svörum Opel í Svíþjóð við spurningum  auglýsingaumboðsmannsins sagði um Corsa-bæklinginn: „Allar myndirnar valdi markaðsstjóri Opel og koma viðbrögðin henni í opna skjöldu. Hugmynd hennar var að sýna kröftugar nútímakonur.“

Tina Müller markaðsstjóri Opel í Evrópu.
Tina Müller markaðsstjóri Opel í Evrópu.
mbl.is

Bloggað um fréttina