Dugar rafhlaðan endalaust?

VW e-Golf er með átta ára ábyrgð á rafhlöðunni. Fyrsti …
VW e-Golf er með átta ára ábyrgð á rafhlöðunni. Fyrsti rafmagns Golfinn er þrjátíu ára.

Með hverju árinu verða rafmagnsbílarnir betri og meira spennandi kostur. Verðið lækkar jafnt og þétt og drægið eykst. Um leið virðast rafmagnsbílarnir ætla að reynast vel, vera hagkvæmir í rekstri og hafa lága bilanatíðni.

En hvað með rafhlöðuna? Nú er rafhlaðan einn dýrasti hluti bílsins. Verður með rafmagnsbílinn eins og með fartölvuna og snjallsímann að rafhlaðan missir smám saman máttinn svo að skipta þarf um hana eftir nokkur ár?

Ekki mikil áhrif á drægi

Gísli Gíslason hjá Even, sem selur Tesla, segir að í raun þurfi kaupandinn ekki að hafa neinar áhyggjur af rafhlöðunni í rafmagnsbílnum. Það sé ekki svo að viðskiptavinurinn sitji uppi með lélega rafhlöðu eftir nokkur ár og þurfi að skipta út fyrir nýja.

„Í Teslunni eru 7.000 sellur í rafhlöðupakkanum og tölva sem stýrir því á hverju sekúndubroti hvernig þessar sellur eru tæmdar og hlaðnar. Stýringin miðar að því að hámarka endirngartíma hverrar sellu og útkoman er að eftir átta ára notkun ætti drægi bílsins ekki að hafa minnkað um nema 10-20%. Þar sem meðaldrægi Tesla er 500 km á hleðslu þá þýðir þetta að eftir átta ár fer bíllinn kannski 420 km á hleðslunni.“

Bendir Gísli á að þetta drægi væri samt feikinóg fyrir daglegan akstur flestra. Eftir því sem bíllinn eldist ætti drægið að halda áfram að minnka, en bíllinn samt að halda notgaildi sínu. „Eftir tólf eða fimmtán ár gæti verið að drægið væri komið niður í 250 eða 300 km en sjálfur keyri ég t.d. aldrei meira en 100 km á dag.“

Risaverksmiðja í smíðum

Ef eigandi bílsins vill samt fá nýja rafhlöðu á þessum tíma og hámarka drægi bílsins á ný, þá segir Gísli að megi reikna með að rafhlöðurnar verði eftir nokkur ár orðnar mun ódýrari en þær eru í dag. „Tesla mun t.d. fljótlega taka í notkun stóra verksmiðju sem mun framleiða fleiri rafhlöðusellur en framleiddar eru í öllum heiminum í dag og ætti að hafa mikil áhrif á verðið.“

Gamla rafhlaðan ætti líka að hafa endursölugildi. „Rafhlöðupakki Tesla er með 85kW hleðslugetu og ef að rafhlaðan hefur t.d. rýrnað um 30% þá er samt um að ræða 50-60 kW rafhlöðu sem hefur ýmiss konar notagildi. Fjöldi fyrirtækja er núna að setja sig í stellingar með viðskiptamódel sem ganga út á að kaupa notaðar bílarafhlöður og gera úr þeim t.d. vararafstöðvar.“

Rafhlöðurnar reynast vel

Bjarni Ólafsson, sölumaður hjá BL, tekur í sama streng og Gísli. BL er umboðsaðili Nissan Leaf og er fimm ára ábyrgð á rafhlöðunum með þeim fyrirvara að komið sé með bílinn í skoðun árlega eða á 15.000 km fresti. „Rafhlaðan á að duga í að minnsta kosti tíu ár og raunar endast allan líftíma bílsins. Í ár er komin fimm ára reynsla á Nissan Leaf og 99,99% rafhlaða í seldum bílum eru enn í fullkomnu ástandi.“

Árni Þorsteinsson, sölustjóri Volkswagen hjá Heklu, segir átta ára ábyrgð á rafhlöðum VW e-Golf. „Fyrirtækið býr að þriggja áratuga reynslu í framleiðslu rafmagnsbíla og smíðaði sinn fyrsta rafdrifna Golf á áttunda áratugnum. Byggt á þessari reynslu getur Volkswagen veitt þessa löngu ábyrgð og ef rétt er hugsað um bílinn ætti geymslugeta rafhlaðanna ekki að minnka um meira en 5% á tíu árum.“

Bendir Árni á að ákveðnir ósiðir geti flýtt fyrir rýrnun rafhlöðunnar. Þannig sé ekki gott að tæma rafhlöðurnar að fullu á milli hleðslna.

Bæði Bjarni og Árni segja að þannig sé gengið frá rafhlöðunum að litlar líkur séu á að rafhlöðupakkarnir skemmist vegna umferðaróhapps. Hafa bílarnir verið árekstrarprófaðir og rafhlöðurnar skaddist ekki svo auðveldlega. „Það eru hverfandi líkur á að rafhlaðan skemmist í venjulegu óhappi,“ segir Árni. ai@mbl.is

Eftir fimm ár á götunum eru rafhlöðurnar í Nissan Leaf …
Eftir fimm ár á götunum eru rafhlöðurnar í Nissan Leaf að reynast eigendum vel. mbl.is/Nissan
Jafnvel þótt hleðslan minnki með aldrinum er Tesla áfram með …
Jafnvel þótt hleðslan minnki með aldrinum er Tesla áfram með gott drægi. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina